mánudagur, desember 17, 2007

Jólakrans úr hvítum plastpokumRakst á þetta hjá Tiu Bennet
Nánari leiðbeiningar er svo að finna hérna.

Hvenær ætlar ÞogG að fara að hittast ? Yfir föndri úr ókeypis efni eða jólatei á Selfossi ?

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Buy nothing day

Þann 24. nóvember er... ja hvað eigum við að segja KAUPLAUSI DAGURINN (Nei við erum ekki að fara að vinna frítt) eða eigum við frekar að kalla hann "VERSLUNARLAUSI DAGURINN". Hvað um það þetta er alþjóðlegur dagur þar sem við neytendur verslum ekkert.

Á síðunni http://adbusters.org/home/ má sjá mjög merkilega auglýsingu um þennan dag og neyslusamfélagið og það merkilega er að MTV neitar að birta þessa auglýsingu þrátt fyrir borgun.
Mæli með því að þið kíkið á síðuna og horfið á þessa auglýsingu sem og aðrar sem adbuster hefur framleitt en fær ekki birtar vegna hagsmunaárekstra viðskiptafélaga sjónvarpsstöðva. Það er sem sagt í fínu lagi að ljúga öllum andsk... í okkur en ekki í lagi að koma sannleikanum á framfæri - í svona samfélögum lifum við, þeir sem eiga mestan peninginn (fyrirtækin) geta haft áhrif á hvaða auglýsingar eru birtar í sjónvörpum.
Góðan kauplausan dag næstkomandi laugardag.

Kv. Helen Sím.

föstudagur, október 26, 2007

ScraphouseÉg rakst á þetta verkefni í vikunni og varð alveg himinlifandi því að smíða hús úr afgöngum hefur verið draumur minn í nokkur ár.
Hins vegar þá get ég ímyndað mér að byggingareglugerðir í San Fransisco séu eitthvað frábrugnar þeim íslensku en hvað um það þetta er frábært framtak.

Mikið væri gaman að prófa þetta á Íslandi... !!!!!

Næsta verkefni Þorra og Góu ?
Sumarverkefni ? Sumarbústaður undir Eyjafjöllum byggður úr afgöngum ?

Nánari upplýsingar um verkefnið hérna

sunnudagur, október 21, 2007

sunnudagur, september 30, 2007

Er haustið tíminn?

Er ekki haustið einmitt tíminn! Þarf nokkuð að bíða eftir jólum og áramótum til strengja heit? Ég er alla vega til í sníðugt verkefni núna. Ég verð kannski alveg púuð niður ef ég sting upp á því að fara aftur í algjört kaupbann, en við eigum fullt af góðum hugmyndum sem við eigum eftir að prófa. Ég á enn krukkuna góðu með smátökum sem væri gaman að pófa.
Ég er líka alveg til í aitthvað annað, kannski leshóp um ákveðið málefni? Hvað segið þið hin?
Rúna Björg

sunnudagur, september 23, 2007

Jólagjafir

Já það er ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Til að við neyðumst ekki til að hlaupa niður á Laugarveg á Þorláksmessu og kaupa ýmislegt ónauðsynlegt dót í jólagjöf er ágætt að fara að huga að þeim. Fara að prjóna úr öllu garninu sem til er, bródera í handklæðin sem við keyptum fyrir löngu og ætluðum alltaf að bródera í, setja klukkuna saman sem var alltaf á dagskránni, klára barnapeysuna sem var hálfkláruð og gefið annari frænku en upphaflega stóð til o.s.frv. o.s.frv.
Kíkið í skápana!
kv. Helen

þriðjudagur, september 18, 2007

Munið bíllausa daginn!

Hm .. Væri ég til í að vera bíllaus? Senilega ekki alveg, en umferðin pirrar mig meir og meir, sérstaklega þegar ég keyri. Umferðarteppa er víst ekki til á Íslandi, enda allir bílar á ferð.

En hvernig væri einn dagur án allra einkabíla. Það væri ég til í að upplifa. Næsta laugardag (22. sept) er hinn árlegi bíllausi dagur. Hér getið þið lesið meira um hann:

http://adbusters.org/blogs/World_Carfree_Day_2007.html

Á þessari slóð eru líka linkar inn á fleiri spennandi bíllausar slóðir.

Hlakka til laugardagsins - hugsið ykkur ef allir tækju þátt!

Rúna Björg

mánudagur, júlí 23, 2007

Boðskort


Boðskort
Originally uploaded by melong
Ég leyfi mér hér með að bjóða meðlimum Þorra og Góu og lesendum okkar á myndlistarsýningu mína.
Ef að þið viljið sjá stærri útgáfu af myndinni þá smellið þið bara á hana !

mbk
Margrét

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Fair trade búð á Laugaveginum - til lukku!

Fór í Fair tade búðina á Laugavegi 20b. Hún er eiginlega við Klapparstíg, við hliðina á Næstu grösum.
Þar er hægt að kaupa kaffi, krydd, olíur, súkkulaði og fleiri matvörur, ferlega flott matarstell, hjólakörfur og alls kyns smádót. Aldrei að vita nema ég fari þá að kaupa annað en mat á næstunni.
Fair trade er einmitt eitt af smátökunum okkar sem hefur ekki enn komið upp úr krukunni góðu.
Kíkið í búðina í góða veðrinu! Hér er umflöllun um hana á vísi.is:
http://www.visir.is/article/20070629/LIFID01/106290116&mrt=2

Rúna Björg

miðvikudagur, júlí 11, 2007

„Kauplaust sumarfrí“

Nú er ekki mikið um að vera hér á síðunni okkar, enda öllum kennurum skipað í frí á þessum árstíma.

Kannski höfum við öll ákveðið taka þátt í smátakinu „drögum úr notkun rafmagnstækja“ og lesum hvorki póst né blogsíður í fríinu? – Ég efast um það, en munið að taka öll rafmagnstæki úr sambandi þegar þið farið í frí! Já, og afpanta blöðin! Hugsa sér hvað safnast mikið rusl á einu heimili á stuttum tíma, meira að segja þó umhverfissóðarnir séu að heiman.

Ég er nýkomin heim frá Lúx, en þar átti ég heima í 16 ár. Þetta var aðeins öðruvísi ferð en vanalega, enda keypti ég enga hluti á „bannlistanum“ í ferðinni. Ég var t.a.m. aðeins lengur að pakka en venjulega. Áður var ekkert mál að pakka, skildi skóna, peysuna eða buxurnar eftir heima ef ég var ekki viss hvort þær ættu að fara með „æ, ég kaupi þá bara nýtt.“ Það var auðvitað ekki tekið gilt í þetta sinn.

Nú eru Lúxarar farnir að selja plastpoka í súpermörkuðum, eins og við gerum. Munurinn er bara sá að hjá þeim virkar þetta. Það er bókstaflega enginn sem kaupir plastpoka, allir koma með innkaupatöskur eða körfur. Þetta er umhverfisáróður í lagi, enda eru pokarnir sem eru seldir með áletruninni „ég gleymdi eco pokanum mínum aftur.“ Svínvirkar hjá þeim, einhverra hluta vegna. Kannski byrjuðum við of snemma að selja plastpoka í búðum hér heima og of fáir meðvitaðir um umhverfismál á þeim tíma. Alla vega vöndum við okkur á að kaupa pokana. Eða er okkur bara sama, bæði um plastið og krónurnar sem þeir kosta?

Mæli með því að þið lesið greinina Chuck out your bin sem Margrét setti hér inn í síðustu færslu!

Rúna Björg

föstudagur, júní 15, 2007

Chuck out your bin


Chuck out your bin
Originally uploaded by melong
Datt í hug að benda ykkur á þennan náunga sem hefur ekki þurft að láta hirða hjá sér sorp í tíu ár ! Geri aðrir betur.
Ég sá þetta í blaði um daginn þegar ég var í Bretlandi. Þvílík sóun þar á hótelinu. Nýtt plastglas á hverjum degi og pakkað inn í plast þar að auki. Ég var í fjórar nætur á þessu hóteli og fékk nýtt handklæði daglega !!! Hitt hótelið sem að ég var á , sá sóma sinn í því að leyfa manni að nota sín handklæði í meira en eitt skipti.

Þið getir lesið grein eftir þennan gaur hér:

http://www.belfasttelegraph.co.uk/features/daily-features/article2623978.ece?service=print

sunnudagur, maí 13, 2007

Vistakstur

Það er ekki leiðinlegt að hjóla í vinnuna, enda ekki löng leið.
Annars hef ég farið ýmsar aðrar ferðir á bílnum þessar tvær vikur, fór niður í bæ á bílnum um helgina. Það er eiginlega meira vesen en að hjóla, ég er örugglega fljótari að hjóla en að keyra. Kökurnar sem ég flutti á bílnum fóru líka út um allt svo það hefði kannski farið betur um þær á hjólinu.

Loksins fann ég upplýsingar um vistakstur á netinu. Þrælsniðugt - ég legg til að við tileinkum okkur vistakstur og smátak næstu viku verði vistvænt samgöngusmátaki.

Markmið mín eru þessi:
1. Hjóla allar styttri ferðir (vegalengdin fer eftir skapinu hverju sinni - bannað að keyra innan hverfis, en hjóla a.m.k. einu sinni milli sveitafélaga eða í úthverfin).
2. Tek strætó þegar hann fer nokkurn vegin beina leið á áfangastað.
3. Tek aðra með mér eða verð samferða öðrum þegar ég þarf að keyra á milli staða.
4. Les mig til um vistakstur og fer eftir þeim ráðum.

Á heimasíðu vistverndar er ágæt lesning um vistvænni samgöngur. http://www.landvernd.is/vistvernd/flokkar.asp?flokkur=1261

Eruð þið ekki til?

Rúna Björg

Nú er ég í vondum málum ... vantar kúst og skrúbb

Nú er það svart! Ég þarf að kaupa kúst og skrúbb fyrir húsfélagið. Mér finnst ómögulegt að falla á kaupleysinu af því það vantar kúst og skrúbb í þvottahúsið. Ætli það séu ekki til 27 kústar og skrúbbar í blokkinni sem hægt er að taka með niður í þvottahús þegar á þarf að halda.

Ég er sem sagt í æsispennandi leit að notuðum kústi og skrúbbi fyrir húsfélagið. Er nú þegar með kúst í sigtinu, á hann vantar að vísu skaft.

Rúna Björg

fimmtudagur, maí 03, 2007

Ég er bænheit ...

Mér finnst ég vera bænheit. Að minnsta kosti gekk það vel eftir að hafa beðið um gott veður í dag þegar ég ætlaði að byrja að ganga. Minn fyrsti dagur og gekk 4,6 km. Er svo að fara í göngu með vinahópi í kvöld. Útgengin fer ég líklega í rúmið í kvöld.
Kv
Gunna

þriðjudagur, maí 01, 2007

Hjólað í vinnuna

Á morgun er fyrsti dagurinn í verkefninu hjólað í vinnuna. Ég er búin að mæla vegalengdina mína og hún er 3 km. Það eru 6 km á dag.
Á meðan mánaðarkort í líkamsrækt kostar sennilega 4-5000 kostar ekkert að ganga. Dálítið galið ekki satt! Reimum nú skóna eða tökum fram hjólahjálminn, ekki hjólum við án hans.
Af stað svo.
Kv
Gunna

sunnudagur, apríl 22, 2007

Sjónvarpslaus vika

Já nú fer sjónvarpslausa vikan að byrja. Á Adbuster er sjónvarpslausa vikan frá 23. - 29. apríl, byrjar sem sagt á morgun. Þetta á eftir að vera sú vika sem mér á eftir að finnast erfiðust af öllum smátökum og stórtökum. Mér líður alla vega vel að hún byrjar ekki í dag („Ég ætla að hætta að drekka á morgun“ syndrome).
Kíkið á auglýsingar á Adbuster um sjónvarpsgláp - mjög góðar. http://www.adbusters.org/metas/psycho/tvturnoff/
Aftur spyrja einhverjir; „Hvers vegna sjónvarpslaus í viku?“ „Hefur það eitthvað með umhverfisvernd að gera?“
Það hefur kannski óbein áhrif á umhverfið því að við erum miklir neytendur og sjónvarpið er einn miðill margra sem dælir upplýsingum um vörur og vörumerki til okkar. Markaðsöflin eru mjög góð í að sannfæra okkur um að okkur vanti þetta og hitt með fallegum auglýsingum og við látum glepjast. Það má segja að þetta sé beint að markaðsöflunum. Það sparar orku, já Vignir og það sparar mikla orku ef það er ekki kveikt á flatskjánum.
Persónulega er að losa um „hálsólin“ sem ég er tengd við sjónvarpið - gera eitthvað annað og meira uppbyggjandi en að glápa

Á Adbuster er viðtal við Rúnu okkar Björgu Garðarsdóttur: http://adbusters.org/the_magazine/71/Breaking_the_Consumer_Habit_Living_the_Buy_Nothing_Life.html
Lesið það, fín grein.

Gangi ykkur vel í sjónvarpsleysinu.
Kv. Helen

sunnudagur, apríl 15, 2007

Smátök

Í umræðum um átökin sem standa eiga í viku hver kom þetta snilldarorð upp: smátök.
Næsta smátak er s.s. að borða ekki kjöt, byrjar í dag og endar á laugardaginn næsta.
Þá er það spurningin: „Hvernig getur það verið umhverfisvænt að borða ekkert kjöt? “ Ég fletti þessu upp í ECOFOOT og þar segir að ástæðan sé að jurtafæði (ákvað að nota ekki orðið grænmeti því það á bara við grænmeti) krefst mun minna lands og orku. Jurtafæði sem kemur af ræktarlöndum notar einungis 0,78 hektara af landi á hvert tonn af mat. Dýraafurðir nota 2,8 hektara af landi á hvert tonn af mat.
Svo má alltaf deila um hvort þetta á alveg við aðstæður okkar hér á Íslandi. Hvað með villibráð? Er hún umhverfisvænni eða ekki? Læt ykkur um að svara því.
kv. Helen

Grænmetisvikan

Þá erum við búin að draga nýtt vikuátak og þessi miði kom upp úr krukkunni: "Grænmetisætur – það má komast að því á www.ecofoot.org að grænmetisætur nota mun minna landsvæði á þessari jörð en aðrir."
Við gerumst sem sagt grænmetisætur dagana 14. - 22. apríl, lítið mál - eða hvað?
Samtök grænmetisætna á Íslandi, það er auðitað málið þessa vikuna! Kíkið á heimasíðuna: www.dordingull.com/veg/
Ég setti fleiri síður hér til hliðar, kíkið á þær ef þið hafið áhuga.
Svo þreytist ég seint á því að segja fólki frá grænmetissendingunum frá Akri (sjá græni hlekkurinn í vistvænum innkaupum).
Á næstu grösum bjóða meira að segja upp á námskeið í lok mánaðarins, skemmtileg tilviljun að okkar vika er á þessum tíma!

Rúna Björg

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Bónustaskan


Bónustaskan hefur fengið sitt hlutverk. Nokkrir kennarar úr Laugarnesskólanum fóru á fund Jóhannesar í Bónus og afhentu honum töskuna góðu að gjöf. Við þökkum Jóhannesi fyrir hlýjar móttökur og vonum að taskan komi í góðar þarfir.

Gunna, Helen, Rúna, Viggi.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Ég er merkjafrík

Ég vissi það ekki fyrr en um daginn, og það kom mér dálítið á óvart, að ég er merkjafrík.
Ég kaupi talsvert af grænmeti og finnst það bæði gott og hollt. Ég þarf hins vegar að leggja mig verulega fram til að vera viss um að grænmetið sem ég er að kaupa sé íslenskt. Um daginn var hins vegar í blöðunum verið að kynna merki sem tryggir að svo sé. Merkið er semsagt íslenski fáninn og síðan stendur líka ÍSLENSKT á viðkomandi vöru. Mér létti. Ég var nefnilega búin að kaupa tiltekið grænmeti í langan tíma í þeirri trú að varan væri íslensk (það var mynd af íslenskri konu sem allir þekkja, textinn á pokanum var allur á íslensku og svo stóð meira að segja að varan væri skoluð úr hreinu vatni, gott ef ekki íslensku) . Mér sárnaði þegar ég seint og um síðir áttaði mig á að þetta annars ágæta grænmeti var alls ekki sú vara sem ég taldi mig vera að kaupa.
Þess vegna fagnaði ég ákaft þegar ég sá "merki" á grænmetinu mínu, íslenskur fánaborði og stendur jafnvel frá hvaða gróðrastöð varan kemur. Ég er sannfærð um gæði innlendra matvæla og tel að við eigum að framleiða okkar eigin mat. Það hlýtur líka að vera umhverfisvænna en að flytja matinn um hálfan hnöttinn, fyrir utan það hvað hann hlýtur að vera ferskari úr heimahögum. Eða hvað finnst ykkur??

Ég er þessvegna stolt af því að tikynna að ég er MERKJAFRÍK þegar kemur að matvöru.
Látum ekki plata okkur.
KV
Gunna

fimmtudagur, mars 29, 2007

Mikil notkun plastpoka i heiminum.

Ég bendi ykkur á þessa heimasíðu sem selur vistvæna innkaupapoka. Í dálknum hægra megin má sjá plastpokanotkun jarðarbúa á þessu ári. Talan hækkar á meðan maður horfir á. Tugir þúsunda á sekúndu.
Hrikalegt að horfa á þennan teljara !

http://www.fairpack.org/index.html

laugardagur, mars 24, 2007

Vikan framundan

Um daginn drógum við um næsta átak sem á að standa í viku, 25. - 30. mars að báðum dögunum meðtöldum.
Yfirskrift þess er: að komast í gömlu fötin. Fólk er þá hvatt til að takast á við óheilbrigt líferni sitt (t.d. sælgætisát, sófaklessu) og reyna af öllum mætti að huga að heilbrigði.
Markmiðið er í sjálfu sér ekki að komast í gömlu fötin enda er vika engan veginn nóg í það :-)) og markmiðið ekki að léttast, heldur að hver og einn taki sig á í því sem honum finnst hann þurfa að bæta.
Á hverjum degi verður boðið upp á 10 mín. leikfimi (utandyra eða innandyra) í hádeginu fyrir starfsmenn Laugarnesskóla.

kv. Helen Sím.

laugardagur, mars 17, 2007

Næstu skref?

Það er ýmislegt sem okkur hefur dottið í hug að gera í framhaldi af kaupum ekkert átakinu. Reyndar held ég að fæst okkar fari aftur í saman gamla farið og dembi sér á bólakaf í neyslu. Sumir ætla að kaupa sér nýja skó, aðra þyrstir mjög í nýjar bækur, enn aðrir ætla að láta reyna á kauplausa daga, vikur eða mánuði áfram.

En við erum ekkert á því að gefast upp, er það nokkuð? Við erum líka mikið fyrir tilbreytingu í lífinu.
Þessi hugmynd kom upp á Hljómalind á fimmtudaginn:
Átaksvikur í anda verkefnisins.
Vikulega yrði dregið um átak. Ég legg til að við drögum um nýtt átak t.d. fyrri hluta vikunnar, söfnum saman upplýsingum til að setja út á síðuna okkar og átaksvikan hæfist annað hvort í vikulokin eða á sunnudegi.

Hér eru nokkrar hugmyndir sem við gætum tekið fyrir, ég man auðvitað ekki eftir öllu, en þið verðið að bæta því við sem gleymist.

Kláraðu matinn þinn úr skápunum - það flæðir eflaust út úr frystinum og búrskápnum hjá mörgum og ekki úr vegi að kaupa mun minna af matvælum í eina viku en við erum vön.

Að komast í gömlu fötin - er það ekki í anda átaksins að borða hollari mat og hreyfa sig meira með það að markmiði að komast aftur í eitthvað af því sem við komumst ekki lengur í?

Getum við gert eitthvað í sambandi við auglýsingar? Er hægt að kaupa eingöngu vörur sem ekki eru auglýstar? Gæti orðið erfitt, mjólkin er meira að segja auglýst, en er lífræna mjólkin líka auglýst?

Eiturefnalaus vika – veljum matvæli án rotvarnarefna, hreinlætisvörur o.fl. sem er með umhverfismerkjum.

Endurvinnsla – flokkum allt sorp í viku, nýtum alla flokkana í sorpu og ekkert svindl. Kannski komast líka flest okkar einhversstaðar í jarðgerðartunnu. www.sorpa.is

Fair trade – á www.rapunzel.com/nature/nature_practices.html má lesa aðeins um það og svo sáu sumir danska þáttinn um vestræna framleiðslu á Indlandi í vikunni.

Forgangsraðaðu í lífinu – setja það sem okkur þykir vænst um og mikilvægast í 1. sæti og sinna því vel.

Gefum eitthvað sem við eigum – eiga ekki allir hluti sem þeir eru löngu hættir að nota, en aðrir gætu hugsað sér að eiga?

Gerum við hluti – það hljóta allir að eiga eitthvað bilað, brotið eða rifið sem má gera við. Það eru svo margir laghentir í þessum hópi.

Grænmetisætur – það má komast að því á www.ecofoot.org að grænmetisætur nota mun minna landsvæði á þessari jörð en aðrir.

Grænt skrifstofuhald – um það má lesa á http://landvernd.is/vistvernd/

Höfum áhrif á aðra, höfum áhrif á stjórnmálamenn – kosningar framundan og ekki úr vegi að nota tækifærið til að koma skoðunum sínum á framfæri. Annars má líka smita hvern sem er af þessari dellu okkar.

Kaupum ekki brauð, bökum það – þessi hugmynd kviknaði út frá umræðu um hvernig mætti hafa áhrif á hátt vöruverð á matvælum.

Orkusparnaður –sleppa þurrkaranum, setja sparperur í öll ljós, muna að slökkva á rafmagnstækjum eftir notkun, taka hleðslutæki úr sambandi, ...

Samgöngur – sumir geta hjólað, aðrir gengið, notað strætó eða rútna, enn aðrir vanið sig á sparakstur á eigin bíl!

Sjónvarpslaus vika – á www.adbusters.org má lesa meira um það.

Verslum í heimabyggð og notum vörur framleiddar í heimabyggð – á www.ecofoot.org er talað um matvæli sem ekki hafa verið flutt lengra en 300 km.

Hvað finnst ykkur? Þeir sem hafa þorra og góu aðgangsorðið geta bætt við listann hér í þessari færslu. Aðrir geta bætt við hugmyndum í athugasemdum og ég bæti þeim inn á listann.

f.h. Þorra og Góu
Rúna Björg

Homo Consumus

Ég stenst ekki mátið að læða hér inn einu ljóði. Það fyrsta í ljóðabókinni Bónusljóð/33 % meira frá 2003 , e. Andra Snæ Magnason, er að finna hið frábæra ljóð, HOMO CONSUMUS ;

Frumeðli mannsins
var ekki veiðieðlið

i öndverðu fyrir daga oddsins
og vopnsins

reikuðu menn um slétturnar
og söfnuðu !
Þeir söfnuðu rótum
og þeir söfnuðu ávöxtum
og eggjum og nýdauðum dýrum

ég
nútímamaðurinn
sjónvarpssjúklingurinn
finn hvernig frummaðurinn brýst fram
þegar ég bruna með kerruna
og safna og safna og safna...

(Birt með góðfúslegu leyfi höfundar)

föstudagur, mars 16, 2007

Bónustaskan

Ég má til með að setja inn ljósmynd af hinni snotru Bónustösku sem að hekluð var úr rúmlega 20 Bónuspokum af henni Guðrúnu.

Hittingurinn í gær var frábær og ég er spennt að sjá hvað "ritararnir" hafa um næstu skref að segja.


þriðjudagur, mars 13, 2007

Kaffi Hljómalind á fimmtudagskvöldið

Á fimmtudaginn ætlum við að kíkja á Kaffi Hljómalind, Laugavegi 21, kl. 20:00.
Það væri gaman að sjá ykkur sem ekki vinnið í Laugarnesskóla þar.
Þið þekkið okkur á hekluðu töskunum ;)

Þorri og Góa

sunnudagur, mars 11, 2007

Fótspor mitt á jörðinni

Ótrúlegar tölur!
Ef allir í heiminum myndu búa og lifa á sama hátt og ég, þyrftum við á 2.8 jörðum að halda ef við ætlum að lifa.
Á síðunni http://ecofoot.org/ má svara spurningum um lifnaðarhætti til að fá að vita hvað marga hektara af ræktuðu landi þarf til að framfleyta einni manneskju.
Ég nota sem sagt 5 hektara af landi. Venjulegur Ameríkani notar 9.57 hektara sem eru langstærstu "notendurnir" (af jörðinni) og Indverjar nota minnst eða 0,5 hektara. Ef Kínverjar notuðu jafn stóran hlut og Ameríkanar þá þyrftum við 25 jarðir. Hugsið ykkur bara.
Prófið síðuna og svarið í einlægni.

Ég er í sjokki!
Við verðum að breytast það er nokkuð ljóst.
Góða skemmtun!
Helen

p.s. mæli með http://adbusters.org/metas/psycho/mediacarta/rejected/ ótrúlegar góðar auglýsingar um áhrif markaðarins á okkur neytendur. Þið bara verðið að skoða þetta.

laugardagur, mars 10, 2007

19. mars ... og hvað svo?

Já, nú eru ekki nema níu dagar eftir af góu! ... og hvað þá?
Verður einmánuður eyðslumánuðurinn mikli? Eruð þið búin að taka ykkur frí þann 19. til að eyða öllum deginum í búðum?

Eða hvað? Höfðum við ekkert upp úr þessu nema eymd og volæði í tvo mánuði?

Ég var að svara nokkrum spurningum á European compact fyrir grein sem á að birta á adbusters.org
Þar var m.a. spurt:
„How much longer do you think you'll last with the compact?“
Og þessu svaraði ég:
„As a group we decided to take one step at a time and chose to start with two months, two of the old Icelandic winter months, thorri and góa.
The support and company I have in our group is important to me, so we’ll see after the 19th of March how it goes.
It feels like cheating, though, if I was to stop after only these two months. Cheating on myself rather than anyone else! It’s not until recently I felt the need to buy something I did not because of the compact. So I think if was to go on for another two months it would start to make a real change in my live.
Whatever I decide, I definatly am not going back to consumerism like before the compact. These two months have had an impact and I certainly will think before I shop. I might adjust the compact to my own needs if none of my colleagues is prepared to continue the compact with me, but I don’t think I will stop after the two months.
I have been asked the question of cheating before – have none of you cheated so far? I don’t think this is a question of cheating or not. As long as we change the way we think about consumerism we are on the right track.“

En þið, hverju hefðuð þið svarað?

Það eru fleiri áhugaverðar spurningar í tengslum við þessa grein á Compact Europe. Hvet ykkur til að kíkja á Compact hópinn í Evrópu. Þið þurfið að skrá ykkur í hópinn til að geta lesið póst og þá getið þið líka svarað þessum spurningum.

Rúna Björg

sunnudagur, mars 04, 2007

Á ég að gefa þér garn?

Ég sat á kennarastofunni í síðust viku og heklaði - úr plastpokum. Sessunautur minn hallaði sér að mér og hvíslaði: Á ég að gefa þér garn Guðrún?
Já það þykir sumum undarlegt uppátæki að hamast við að vinna nytjahlut úr drasli eins og plastpokum. Ég á hins vegar allnokkuð af garni og ýmsum efnum sem bíða bara eftir að úr þeim verði unnið. Þá er líka eitthvað til af hálfunnum munum sem ekki tókst að ljúka við áður en ný hugmynd fæddist. Ég er örugglega ekki ein um að fá hugmyndir hraðar en hendurnar geta unnið úr.
Ég hafði hins vegar á tilfinningunni að sú sem bauðst til að gefa mér garnið hafið fundið til mér vegna verslunarbannsins! Málið er hins vegar að mér finnst mér engin vorkunn. Börnin mín eru hins vegar farin að spyrja hvenær þetta verði búið. Enda vita þau að ekkert þýðir að biðja um neitt þessa dagana. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að maður verði að endurnýja það sem gengur úr sér. Annars hafa krakkarnir líka gott af því að hugsa um þetta.
Það hvað verið er að hekla kemur hins vegar í ljós á allra næstu dögum.
Kveðja
Gunna

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Götusölumaðurinn Erlendur

Mér fannst ég nú ansi heppin að vera í ÞogG í kvöld. Það bankaði upp á hjá okkur maður sem að rétti mér póstkort. Á því stóð að hann vildi bjóða mér upp á handverk. Ég sagði honum bara að ég keypti ekki neitt. Hann vildi samt koma inn og sýna mér. Ég sagði honum aftur að ég myndi ekki kaupa neitt en hann vildi samt sýna mér vörur sýnar. Hann fór fúll en ég kvaddi hann glöð í bragði !!!!

mánudagur, febrúar 26, 2007

Kaupum ekkert - top tíu listi

Neðst á síðunni okkar setti ég til gamans inn lista yfir "kaupum ekkert tónlist" sem ég fékk að láni á Never Enough? síðunni. Ef þið eigið eitthvað af þessum lögum er ég til í að fá þau lánuð.

Rúna Björg

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Hversu mikið er nóg?

Ég var að skoða heimasíðu 'Never Enough?' campaign í Manchester á www.enough.org.uk

Erum við að uppfylla raunverulegri þörf með því að kaupa alla skapaða hluti og eiga allt til alls, nýja útgáfu af hinu og þessu. Eru þetta okkar eigin þarfir eða þarfir annarra? Hver ræður ferðinni í þessu neyslubrjálæði, þegar aðeins lítill hluti mannkyns gengur á meirihluta auðlinda jarðar?
Ég er ekki til í að neita mér um þau þægindi sem ég bý við. Ég vil eiga samskipti við fólkið mitt út í heimi, nota tölvuna, farsímann ... og ferðast, hlusta á tónlist alls staðar að úr heiminum, fara í bíó, keyra mig í matarboðið í Hafnarfirði ...
Til hvers erum við þá með þetta "vesen" í tvo mánuði? Erum við bara að þessu til að pína okkur? - Nei, er það? Erum við að sýnast? – Kannski?
Ég veit alla vega núna - og vissi svo sem áður, en hugsaði ekki um - að ég get verið ansi ánægð með lífið og tilveruna án þess að rjúka til og kaupa nýju útgáfuna af öllum sköpuðum hlutum. Það er allavega þess virði að íhuga hversu mikil efnisleg gæði við þurfum til að láta okkur líða vel.
Það er svo auðvelt að telja okkur trú um að meiri hamingja sé rétt handan við hornið og þangað komumst við með aðeins meiri vinnu, aðeins hærra kaupi (hættuleg umræða í kennarastétt) og aðeins meiri hraða. Það eru allavega nógu margir sem stunda þessa iðju - bæði að auglýsa hamningjuna og að elta hana.
Ég skal ekki segja hvað við gerum eftir þessa tvo mánuði. Kannski hlaupum við niður á Laugaveg og drekkjum okkur í drasli – eða er kominn tími til að meta hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm?

Er meira alltaf betra?

Rúna Björg

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Presque rien - næstum því ekki neitt

Ég er eins og þið hin, vona ég, dálítið upptekin af þessum nýja hugsunarhætti okkar og finn víða tengingar við "meinlætalífið" - sem mér finnst svo sem ekkert meinlætalíf, heldur kjörið tækifæri til að verja tímanum í það sem mig langar til að gera.

Nema hvað frétt í laugardagsmogganum um sýningu í Nýló, Laugavegi 26, vakti athygli mína. Presque rien - næstum því ekki neitt heitir hún og minnir á að við getum gert svo merkilega hluti úr næstum engu eða með því að gera næstum ekki neitt eða eins og segir í greininni: „Næstum því ekki neitt, það er ekki ekki neitt.“
Hér er umfjöllun um sýninguna af www.nylo.is: „Ætlunarverk sýningarinnar er að afhjúpa svo ekki verði um villst hversu lifandi og öflug hin stöðuga sköpun, sem Robert Filliou var svo kær, er enn hjá listamönnum okkar tíma. Miðpunktur sýningarinnar er listaverkið Poïpoïdrome, sem Robert Filliou og Joachim Pfeufer skildu eftir í Nýló árið 1978. Kringum verkið munu þekktir franskir myndlistarmenn bregða á leik og koma þannig hugmyndinni um "République Géniale" ?("Snilldarlega Lýðveldið") enn lengra, í þágu mannkynsins. Orðatiltæki Fillious, og lykilorð eins og Virkur, Breytilegur, Hreyfing, Orka, Árangur, Nægjusemi, Flæði, Hverfulleiki og Innskot munu leggja undir sig sýningarsvæðið. Sýningin snýst ekki um að fylla rýmið af verkum, heldur að horfast í augu við listsköpunina, í sinni nöktustu mynd, og brosa til hennar, eða ekki. "að gera næstum því ekki neitt, það er það sem listamennirnir gera", hefði Filliou getað sagt.“

Rúna Björg

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Þorrinn búinn og góan eftir

Jæja, þá er þorrinn búinn og bara góan eftir.
Það fer kannski að reyna meira á núna. Eða hvað haldið þið?
kv. Helen Sím.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Litlar buddur úr pokum

Mig langaði að sýna ykkur afrakstur örnámskeiðsins sem Gunna hélt í gær í að hekla tösku úr plastpokum. Ég er bara svo skynsöm að byrja á litlum hlutum.
Bláleita buddan er úr einum plastpoka og verður lítil snyrtitaska eða pennaveski eða eitthvað slíkt. Eins og þið sjáið er ég ekki búin en mig langaði að sýna ykkur myndirnar núna. Græna sólgleraugnahulstrið er úr einum Blómavalspoka og tók mig tvö kvöld að hekla.
Kveðja Helen

föstudagur, febrúar 16, 2007

Leikföng úr "drasli"

Það gengur enn vel, þegar maður fer ekkert í búðir þá er þetta ekkert mál. Ég ætlaði að klippa tré í gær en fann ekki klippur. Var viss um að þær væru á sumarheimilinu. Nú ég hefði sennilega hlaupið út í Byko til að kaupa annað par ef ekki væri fyrir ÞoG !

En það sem að mig langar svo mikið til að deila með ykkur er að ég datt niður á frábæra gjafalausn fyrir 4 ára systurson minn. Ég hafði hugsað mér að sauma handa honum orm úr gömlum sokkum og nota kannski gömul föt í innvolsið. Ég á mjög stóran poka heima af ósamstæðum sokkum og hafði séð á flickr tuskudýr úr gömlum fötum. Nema hvað að í morgun í kennslu þá bara datt ég niður á þetta skopparakringludæmi. Ég fékk hjá smiði fyrir nokkuð löngu síðan, litlar skífur sem eru boraðar úr spónaplötum. Þið sjáið þetta ef að þið smellið á myndina. Hún skýrir allt. Nú ég hendi ekki litlum trélitastubbum heldur geymi þá til að nota í listsköpun. Þeim stakk ég í gatið og voila, þarna var komin hin fínasta skopparakringla. Við lituðum þær svo með neocolor litum svo að þær yrðu meira spennandi.
Krakkarnir sem eru í 4. bekk voru yfir sig hrifin og lágu á gólfinu í skopparakeppni.´
Nú þarf ég að betla fleiri skífur hjá hinum og þessum smiðum til að fleiri nemendur geti fengið að gera kringlur. Þessu er bara hent.
Fleiri myndir af verkefninu má sjá með því að smella hér.


fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Það vottast hér með að ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað lengi á þessa síðu er ekki sú að ég hafi legið í felum í eyðslusukki og kaupfíkn að undanförnu...ég hef bara ekki komist inn á bloggið fyrr en nú.
Undanfarinn mánuð hef ég aftur á móti af og til verið gripin óstjórnlegu kvíðakasti. Ástæðan er að mér hefur reynst þetta kaupbann óeðlilega auðvelt miðað við það sem vænta mátti...svona svo tekið sé mið af mér og minni fyrri hegðun í búðum.
Þessvegna hefur af og til skotið upp í kollinum á mér þeirri hugsun, hvort hugsast gæti að ég væri að versla í einhverskonar óráði og meðvitundarleysis ástandi, án þess að hafa hugmynd um það sjálf.
En það er ekki að sjá að það hafi bæst við draslið í annars yfirfullri íbúðinni og því er aðeins sá möguleiki eftir að þetta verslunarbindindi sé bara mun auðveldara en mig hefði áður órað fyrir.
Í dag leysti ég að mínu mati gjafamál á snildarhátt sem ég vil gjarnan deila með ykkur...
Vinkona mín var að flytja inn í nýtt húsnæði og við slík tækifæri ber manni að koma færandi hendi. Ég fór í Góða hirðinn, keypti glæsilega basstkörfu (fyrir heilar 200 kr.), hafði vöruskipti við móður mína á heimagerðu sultunni hennar og heimagerða kryddleginum mínum, settu berjasultuna og kryddlög í körfuna, keypti þrjá osta í Bónus sem líka fóru ofan í körfuna ásamt glóðvolgu heimabökuðu brauði og ilmkerti sem ég gróf innan úr skáp hjá mér. Síðan slaufa utan um alltsaman...og þetta gerði þessa líka stormandi lukku... ;o)
Mikið skelfing líður bæði mér og peningaveskinu mínu vel eftir daginn... ;o)
Kv. Dammý.

Heklum töskur úr plastpokum

Í morgunkaffinu í fyrramálið bjóðum við upp á örnámskeið í töskugerð úr plastpokum í anda Ingu á Bjarkargötunni sem Systa sagði okkur frá hér á síðunni 6. febrúar.
Staður og stund: Á kaffistofunni okkar kl. 10:35
Efni og áhöld: Komið með grófa helkunál, nr. 5 eða 6, einn plastpoka og skæri. Auka heklunálar og skæri verða á staðnum - enda getum við ekki farið út í búð að kaupa nýjar nálar og skæri!!

Það er svo sem ekki víst að við fáum afgreiðslu í verslunum á næstu dögum. Ég fór í eina af mínum uppáhalds búðum, Pipar og salt, í vikunni. Þar fékk ég góðar móttökur eins og venjulega, nema hvað tekið var á móti mér með undrun: "Þú hér? Ég hélt þú mættir ekki lengur fara í búðir!"

Rúna Björg

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Vakin og sofin yfir átakinu

Já, ég get ekki sagt annað en að þetta átak okkar er farið að hafa veruleg áhrif á mig.
Mig dreymdi nefnilega í nótt að ég var stödd í leikfangaverslun með allri fjölskyldunni og mér leið hálf undarlega. Ég verslaði þó ekkert í búðinni en þegar ég kom út sá ég að fylgst var með mér. Enginn annar en Þorgeir Ástvaldsson og einhver annar útvarpsmaður (voru með útsendingu) voru úti í glugga á móti versluninni að fylgjast með mér.
Ég veit svei mér ekki hvernig ég á að túlka drauminn, kannski er ég hrædd um að falla eða vera gómuð við að versla. Hvað haldið þið?
kv. Helen

Takk fyrir að leyfa mér að vera með !

Þá er maður nú búinn að taka skrefið til fulls og hér kemur fyrsta innleggið frá mér.
Ég verð að játa það að um leið og ég uppgötvaði þorrann og góuna að þá dreif ég mig í að panta jarðgerðarkassa til nota innandyra. Þeir koma frá Svíra og mér líst mjög vel á þá. Ég bjó áður í sveit og þá var lítið mál að losa sig við matarafganga en nú hef ég sett þá í ruslið með hinu síðan í haust og ég er alveg búin að fá nóg af því. Þegar maður einu sinni er búinn að venja sig á það að endurvinna matinn þá er hitt alveg ómögulegt.

Varðandi innkaupabindindið þá eru tvö afmæli framundan. Sá sem verður 4 ára er nú ánægður með hvað sem er þannig að ekki verður mikill vandi að leysa það. Hins vegar er eitt fertugsafmæli líka í mars. Það sem að ég ætla að leggja til við afmælisbarnið er að ég megi gefa henni heimatilbúna gjöf og svo þegar ég verð fertug geti hún gefið mér eitthvað heimatilbúið líka. Við gætum líka farið saman í leikhús með þeirri þriðju sem fertug verður á árinu.

Takk fyrir takk
Margrét

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Gamlar gardínur fá nýtt hlutverk

Steinunni systir og Ara vantaði gardínur fyrir kjallaragluggana í nýja húsinu sínu.
Mamma tíndi fram hvern pokann á fætur öðrum úr geymslunni hjá sér og viti menn, okkur tókst að sauma nýjar gardínur fyrir kjallaragluggana þrjá úr 7 gömlum gardínum sem hafa beðið eftir nýju hlutverki í tæp 20 ár.
Segið svo að átakið okkar hafi ekki áhrif - eða erum við systur svona vel uppaldar?
Ég á kannski ekki langt að sækja þá áráttu að geyma ólíklegustu hluti, sannfærð um að ég geti notað þá einn góðan veðurdag.
Það er að minnsta kosti óþarfi að henda því sem er heilt.

Rúna Björg

föstudagur, febrúar 09, 2007

Fréttir af rifna kjólnum

Viðgerð á kjólnum er nú lokið. Eftir allnokkrar vangaveltur og ótrúlega skemmtilegar tillögur frá ykkur félögunum og fleirum, komst ég loks að niðurstöðu um hvernig ég ætti að laga kjólinn minn. Viðgeðarefnið kostaði rúmar 100 krónur (130-140 kr minnir mig) og nokkrar stundir við bróderí. Hann skartar nú dásamlegum pallíettuborða meðfram klaufinni, upp og niður. Það er hreinlega bara eins og að eiga nýjan kjól.
Og hvað hef ég nú lært af þessu? Hvorki meira né minna en Pallíettubróderí en það hafði ég semsagt ekki lært áður.
Nú get ég því sungið eins og Helena Eyjólfsdóttir forðum :

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott,
það má finna útúr öllu ánægjuvott . . .
Kv. Gunna

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Björt framtið?

Bekkurinn minn (10-11 ára krakkar) hélt óundirbúinn málfund í vikunni. Spurt var: “Eigum við að flokka sorp?” Í Laugarnesskóla hafa krakkarnir flokkað sorp, þ.e. lífrænan úrgang, fernur og pappír, í nokkur ár, en að öðru leyti var þetta algjörlega óundirbúið verkefni.
Miðað við skoðanir krakkanna og þekkingu á þessum málaflokki ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðinni. Þeir komu fjölbreytt rök fyrir því að flokkar sorp og draga þannig úr mengun, fátækt í heiminum, auka jöfnuð í heiminum, auka vellíðan o.s.frv.
Við ættum að taka okkur æskuna oftar til fyrirmyndar. Í það minnsta ættum við að leyfa krökkunum að segja sína skoðun og gefa þeim tækifæri til að lifa eftir henni!

Rúna Björg

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Góði hirðirinn

Í gær kom ég við í Góða hirðinum og þar var margt um manninn. Ég hef nú komið þangað áður en í gær fór ég með allt öðru hugafari. Áður hef ég rétt svo litið þarna í gegn en ekki skoðað almennilega.
Það er hægt að fá ótrúlegustu hluti þarna. Þrjú sjónvörp voru til sölu á milli þrjú og fimm þúsund krónur, ísskápar, eldavélar, sófar, borð, stólar í massavís, hnífapör, kökuform og fleira og fleira. Fann samt enga ramma eins og mig vantar en maður verður að vera reglulega þarna því mér sýnist hlutirnir renna út eins og heitar lummur. Það er samt örugglega mjög lítill hluti sem endar í Góða hirðinum, það er svo margt sem fólk hendir í heimilissorpið.
Mig vantaði nú bara ramma en fékk smá fiðring um að kaupa bara eitthvað en lét það ekki eftir mér.
Kv. Helen

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Neyðin kennir naktri konu að spinna!

Ég á óvenju mikið af plastpokum núna sem er ágætt þar sem ég safna þeim saman sem ruslapokum og passa að henda þeim ekki fyrr en þeir hafa uppfyllt sitt hlutverk sem slíkir.
En nú ber svo við að þeir eru óvenju margir og mér datt í hug leið til að nýta þá á hagkvæman hátt.
þegar ég var lítil stelpa (um 30 ár síðan) þekkti ég gamla konu, hana Ingu á Bjarkargötunni sem við mamma heimsóttum oft á sunnudögum.
Inga gamla var hálfblind en samt sem áður snillingur í höndunum og lét blinduna ekki aftra sér í að skapa hina fegurstu hluti úr allsskyns afgöngum sem til féllu.
Ég man sérstaklega vel eftir sundtösku sem hún hafði gefið mér og mér fannst svo merkileg fyrir þær sakir að hún var gerð úr plastpokum. Taskan var vatnsheld, falleg og litrík að sama skapi.
Inga hafði klippt plastpoka niður í ræmur og heklaði síðan úr ræmunum þessa líka fínu tösku sem ég átti svo í mörg ár.
Annað sem er mér minnisstætt um þessa yndislegu konu var það að hún var langt því frá að vera rík og hafði úr tiltölulega litlu að moða og því var nýtnin á heimilinu alveg á skjön við það sem flestir þekkja í dag, þar sem allir eru að drukkna í einnota drasli sem við erum í mesta basli með að losa okkur við.
Neyðin kenndi henni að spinna meðan ofgnóttin neyðir okkur til að finna leiðir til að losa okkur við "draslið" .... já eigum við ekki bara segja....á skapandi hátt.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Afmælisgjöfin

Í dag fór ég með 7 (að verða 8) ára frænku minni í leikhús. Við Bergur sóttum hana og vorum með kort (sem við bjuggum auðvitað til) sem hún þurfti að lita á til að fá að vita hvað við værum að fara að gera.
Við gáfum henni sem sagt ferð með okkur í leikhús. Sú stutta var alsæl og ánægð með leikritið og ferðina. Á heimleiðinni sagði hún að þetta væri besta afmælisgjöfin sín. Svo þið sjáið, hún var ánægð. Ég var næstum því búin að kaupa leikskrá eða plakat handa blessuðu barninu líka (leikararnir voru nefnilega að árita eftir leikritið). En ég náði að stoppa mig af áður. Þannig að ef einhver á leikskrána af sýningu Ronju ræningjadóttur og veit ekki hvað hann á að gera við hana þá get ég tekið við henni og gefið frænkunni (þetta var nefnilega fyrsta leikhúsferðin hennar).

Mér heyrist á mörgum að kaupa enga hluti sé svo sem ekki mikið mál en það sé verra með gjafirnar. Þið hafið eflaust einhverjar sögur. Leyfið okkur að heyra
kv. Helen Sím.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Plastpokar eða innkaupatöskur


Hversu oft segjum við ekki "Heyrðu, viltu bæta einum plastpoka við...já, eða kannski tveimur" þegar við stöndum við afgreiðslukassann og erum að klára innkaupin okkar?
Ég las í bókinni "Change the World for a Fiver" að hver manneskja í Bretlandi notaði að meðaltali 134 plastpoka á ári eða 8 billjónir samanlagt!!! Og að það getur tekið um 500 ár fyrir plastið að eyðast eftir að það hefur verið urðað.

Hvað skyldum við Íslendingar nota marga á ári? Ef til vill eitthvað svipað og Englendingarnir, eða samanlagt eitthvað um 40.200.000 plastpoka?

Er ekki málið að fá sér innkaupatösku, notaða að sjálfsögðu...já, eða bara hanna eina og hrista hana síðan fram úr erminni. Þetta er meira að segja "inn" í Frakklandi!

Verum vistvæn í verki.

Kveðja frá Hlemmi +
Vignir Ljósálfur

P.S. Ég keypti mér nefnilega innkaupatösku á s.l. ári í Søstrene Grene...en gleymi alltaf að nota hana! Nú verður breyting þar á þar sem það er í anda hópsins okkar.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Sjalfsþurftarbúskapur?

Jæja, ætli líði ekki að því að ég fari að stunda sjálfsþurftarbúskap, eins og Steinunn systir stakk upp á þegar ég sagði henni frá þessu framtaki okkar.

Nú erum við líka hvött til að sniðganga vöru frá aðilum sem hafa hækkað vöruverð, enda styttist í lækkun á vaski á matvöru o.fl.
Hópur "venjulegs fjölskyldufólks" heldur úti heimasíðu um málið á slóðinni nogkomid.blog.is
Í kynningu þeirra segir m.a.: "Við erum venjulegt fjölskyldufólk sem fengið hefur nóg og höfum hafið herferð til að mótmæla hækkunum birgja og verslana á matvörum.
Við hvetjum fólk til að sniðganga vörur og verslanir sem ætla sér að grípa tækifærið og græða meira á okkar kostnað og éta upp lækkanir ríkistjórnarinnar."

Lista yfir aðila sem hafa hækkað vöruverð er að finna á heimasíðu neytendasamtakanna, línkurinn þeirra er í vistvæna safninu okkar. Þessi listi er uppfærður reglulega.

Annars ætla ég að bregða mér í bæinn á morgun. Ætla að skoða nokkrar verslanir sem selja notaða vöru. Mér finnst auðvitað enn jafn gaman að kíkja í bæinn þó ég kaupi enga nýja hluti - fæ mér kannski nýlagað te!

Rúna Björg

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Útsölurnar
Þessa dagana hamast verslunareigendur við að lækka verðið á útsölunum til að reyna að kreista frá okkur aurana. . . Í gær var ég nærri búin að missa mig. Ég fékk semsagt SMS frá versluninni ZIK ZAK þar sem mér var sagt að verðið hefði hreinlega hrapað niður úr öllu valdi, flíkurnar komnar niður í 500 kall ! Mín fyrstu viðbrögð voru þau að ég ætti nú bara að kíkja þar við á leið heim úr vinnunni - en svo áttaði ég mig og minnti mig á að mig vantaði í rauninni ekki svo ofboðslega mikið að fá mér nýja flík. Svo kom hún "Pollíanna" á öxlina á mér og hvíslaði því líka að mér að það væru hvort eð er bara vetraföt á þessum útsölum og vorið kemur bráðum . . .
Í dag líður mér miklu betur og dettur ekki í hug að fara á útsölu.
Gunna

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Recycle this

Ég var að bæta nýrri heimasíðu við safnið okkar. Þessi heitir Recycle this og er bresk. Hægt er að senda fyrirspurn í tölvupósti um hvernig eigi að endurnýta eða endurvinna ólíklegustu hluti. Lesendur síðunnar geta auðveldlega komið með ábendingar og hugmyndir. Það er t.d. stungið upp á því að nota gamlar myndbandsspólur til að fæla fugla frá matjurtagarðinum. Snilld!

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Tólfti dagurinn

Já nú er tólfti dagurinn í átakinu að renna upp. Nokkrir hafa komið að máli við mig og talað um að þó svo þeir séu ekki í átakinu eru þeir orðnir mjög meðvitaðir um það sem þeir kaupa og hugsa sig tvisvar um.
Ein sagði mér að baðvigtin á heimilinu hefði brotnað og það hvarflaði að henni að fara strax og kaupa nýja en... hún ákvað að hún þyrfti ekki á baðvigt að halda fer bara á vogina á líkamsræktarstöðinni. Við höfum augljóslega áhrif á fólk.
Nú er frétt um okkur komin á vef vistverndar í verki http://landvernd.is/vistvernd/ og Bryndís starfsmaður vistverndar ætlar að bætast í okkar hóp og kaupa ekkert þorrann og góuna. Við bjóðum Bryndísi velkomna í hópinn.
Kv. Helen

sunnudagur, janúar 28, 2007

Gjafir

Í gærmorgun fór ég að skoða nýfæddan frænda. Ég var ekki búin að kaupa neitt áður en átakið hófst og var því í pínu vandræðum, ekki búin að prjóna neitt úr öllu þessu garni sem ég á. Ég náði í kassa fullan af barnaleikföngum sem strákarnir mínir áttu og Kjartan (3 ára) valdi tvo hluti til að gefa þeim nýfædda. Pakkaði þeim inn og var hoppandi glaður í orðsins fyllstu..... Hann var svo ánægður að gefa frænda sínum gamla dótið sitt. Nú höfum við oft farið saman að kaupa alls kyns gjafir en Kjartan hefur aldrei verið eins ánægður og nú að gefa gjöf.
Kv. Helen

laugardagur, janúar 27, 2007

Ég rölti i bæinn og.....

... stóðst allar freistingar. En það er ekki heiglum hent að ganga niður Laugaveginn og versla ekki neitt. Það eru ÚTSÖLUR ÚTSÖLUR á hverju götuhorni. Allt að 30%, 50% og 80% afsláttur! Það var sérstaklega erfitt að skoða allar bækurnar sem eru á útsölu (ég fór í allar bókabúðirnar í miðbænum).
Ég get rétt ímyndað mér að það hlýtur að vera sérstaklega erfitt fyrir þá sem eru með kaupæði. Og talandi um kaupæði, þá er mjög góð grein um það í helgarblaði DV þar sem Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur svara spurningum um þessa fíkn. Ég er örugglega með snert af kaupæði!
Reynið endilega að verða ykkur úti um eintak. Eins og ég segi, þá er þetta athyglisverð lesning. Ef þið eruð ekki áskrifendur þá má nálgast blaðið á bókasöfnum, veitingastöðum eða bara hjá vinum og vandamönnum þar sem dagblöð hljóta að vera á lista yfir bannvörur...er það ekki annars?.

F.h. Þorra og Góu
Vignir Ljósálfur

föstudagur, janúar 26, 2007

Maurar, Marx og ristað brauð!

Við erum eins og sandkornin í Jöklu, eins og dropinn sem holar steininn, eins og ryð á járni.
Við erum maurar. Maurar sem gæða sér á brauðfótum kapítalismans. Óristað og án smjörs.
Ég legg til að allir í átakinu fái sér Marx og Engels í hönd sér til ánægju og yndisauka. Það er ekkert betra en að hafa Marx í annarri og súran hrútspung í hinni. Held ég eigi tvö eintök af bók eftir Marx heima, kem með eina á mánudaginn í kennarabókasafnið. OM!

Kennarar Laugarnesskóla, sameinist!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Ónýtir sokkar??

Í hádeginu á morgun bjóðum við þeim fjölmörgu sem hafa áhyggjur af sokkum og sokkabuxunum sínum upp á örnámskeið í að stoppa í sokka.
Staður og stund: Á kennarastofunni okkar kl. 12:30.
Efni og áhöld: Komið með götótta sokka eða sokkabuxur. Nálar og garn verður á staðnum.

Rúna Björg

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Er þetta ekkert mál?

Jæja, gott fólk. Þetta virðist bara vera lítið mál í hópnum.
Klípurnar virðast fáar sem fólk er að lenda í.
Látið endilega í ykkur heyra!
Segið frá hvað er að gerast, hvernig þið leystuð vandamál sem komu upp þegar þið hefðuð annars keypt hluti.

Ég hef sjálf lent í að hugsa "ohhh af hverju útsala þarna núna og ég í kaupbanni" svo hef ég áttað mig að þó svo ég væri ekki í átakinu ætti ég ekki erindi á þessa útsölu því ég á nóg af því sem verið er að selja.

Ég fór í gegnum fataskápinn hjá mér og ætlaði að losa mig við eitthvað en svo hugsaði ég "best að reyna að nota eitthvað af þessu" og það gerði ég.

Látið í ykkur heyra hvort sem þið eruð með í átakinu eða ekki.

kv. Helen Sím.

mánudagur, janúar 22, 2007

Það var ekki mikið mál að halda sig frá verslunum um þessa helgi. I sveitinni eru blessunarlega engar búðir, bara fjallasýn og fegurðin eins og best verður á kosið. Svona þegar maður fer á fætur eftir þorrablótið. Eftir helgina blasir þó við eitt vandamál; sparikjóllinn minn er semsagt rifinn! Hvað er þá til ráða þegar ballvertíðin er rétt að hefjast og búið að strengja þess heit að ekki skuli farið í búðir? Má sauma sér nýjan? Má kaupa sér efni? Hvað með fólk sem hefur þörf fyrir að skapa?
Fyrir viku síðan hugsaði ég með mér að ég gæti alveg staðist 2 mánuði búðalausa þar sem ég hefði nóg af bókum og nóg af garni og handavinnu til að halda mér gangandi. Í mínu tilfelli er handavinna eins og sálfræðingur eða geðlæknir - til að koma kyrrð á sálina, að slaka á. Hvernig sný ég mér nú?
Guðrún

sunnudagur, janúar 21, 2007

Reykjavik Freecycle, skiptimarkaður a netinu

Á heimasíðu Freecycle www.freecycle.org er að finna hópa víða um heim sem hafa það að markmiði að forða nothæfum hlutum frá ruslahaugunum. Með því að skrá þig í yahoo hóp getur þú bóðið öðrum meðlimum hópsins hluti sem þú ert hætt(ur) að nota eða auglýst eftir því sem þig vantar - og allt verður að vera gefins.
Ég skráði mig í Reykjavíkurhópinn í dag. Þar virtist svo sem ekki mikið um að vera einmitt núna, en ég sá þó ýmislegt áhugavert. Auglýst er eftir notuðum frímerkjum, barnaföt eru gefins og mest spennandi: Lager brúðakjólaverslunnar er falur og til sýnis heima hjá eigandanum, ef ég skildi þetta rétt!

Eflaust eru ýmsar ástæður fyrir því að við ákváðum að prófa að kaupa ekkert næstu mánuði, þessi rök úr tölvupósti frá Freecycle eru ágæt: "By using what we already have on this earth, we reduce consumerism, manufacture fewer goods, and lessen the impact on the earth. Another benefit of using Freecycle is that it encourages us to get rid of junk that we no longer need and promote community involvement in the proces."

Þá er best að fara að taka til og sjá hverju ég er til í að sleppa. Eins og þið vitið, sem þekkið mig, er ég snillingur í að henda engu og safna alls konar drasli (eða dóti?). Ég er nefnilega viss um að ég á eftir að nota þetta allt saman, einn góðan veðurdag.

Rúna Björg

laugardagur, janúar 20, 2007

Eins og maðurinn sagði...

Eftir daginn í dag get ég auðveldlega gert orð gamals nýskupúka að mínum...
"Góður dagur í dag, ég hreyfði ekki buddu" ;o)
...en mikið er ég sammála þér Rúna, ég er með sparnað á heilanum og hugsa um fátt annað en að ég sé ekki að eyða peningum í óþarfa þessa dagana...ég hef aldrei á ævinni hugsað eins stíft um innkaup af öllu tagi eins og undanfarna tvo sólarhringa...
Kannski það að versla ekki verði jafn mikil þráhyggja og að versla í óhófi ?

Kv. :o

Kaupa hamingju?

Góðan daginn,

Þá er það kauplaus dagur nr. 2. Það er ótrúlegt hvað ég hugsa mikið um að kaupa ekkert. Ég hefði sennilega ekki hugsað um að kaupa nokkurn hlut ef við værum ekki í verslunarátaki. Ég keypti ávexti og ber í gær og er að sjóða sultu svo ég eignist nú eitthvað nýtt í dag!

Hvað um það, ég var að skoða vefsíðuna vistvernd í verki og fann frétt sem sýnir að við eigum eftir að verða mun hamingjusamari eftir þessa tvo mánuði.

Rúna Björg

P.S. Ég læt fréttina fylgja með í umræðum:

föstudagur, janúar 19, 2007

Átakið hafið

Þá er átakið hafið.
Nú þreyjum við þorrann og góuna og kaupum ekkert nýtt dót.
Þátttakendur hittust á spjallfundi í hádeginu, gæddu sér á léttum veitingum sem voru í boði Rúnu Bjargar (jólapiparkökur o.fl.) og ræddu málin. Mikill hugur er í fólki og allir tilbúnir í slaginn. Það örlar ef til vill á smá kvíða hjá sumum þar sem það getur verið MJÖG erfitt að standast freistingar og neita sér um að kaupa eitthvað sem mann langar í eins og t.d. flatskjá!
Látið heyra í ykkur hvernig gengur (smellið á Umræður).

F.h. Þorra og Góu
Viggi

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Startfundur

Átakið okkar þreyjum þorrann og góuna hefst eftir 21 klst. og 53 mínútur.
Þátttakendur í þessu átaki eru nú orðnir 13 sem ætla að segja markaðsöflunum stríð á hendur, en allir eru velkomnir og ekki of seint að byrja.
Á morgun, bóndadaginn ætlum við að hittast á kennarastofunni kl. 12:35 og starta átakinu með spjalli, léttum veitingum og peppi.
Nú eru síðustu forvöð að kaupa einhvern óþarfa, eins og t.d. flatskjá!

f.h. Þorra og Góu

Viggi og Rúna Björg

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þreyjum Þorrann og Góuna

Hér er á ferð hópur sem ætlar að strengja þess heit að fara í verslunarbann - frá því Þorrinn byrjar og þar til Góunni lýkur. (frá 19. janúar - 19. mars)

Tilgangurinn er að segja markaðsöflunum stríð á hendur, gerast umhverfisvænni, spara peninga og draga úr "hlutaveiki og græðgisvæðingu".

Reglurnar eru:
má kaupa mat, hreinlætisvörur, lyf og öryggisvörur.
Annað má kaupa NOTAÐ eða fá á skiptimörkuðum.


Fyrir hönd Þorra og Góu,
Helen og Viggi