þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Neyðin kennir naktri konu að spinna!

Ég á óvenju mikið af plastpokum núna sem er ágætt þar sem ég safna þeim saman sem ruslapokum og passa að henda þeim ekki fyrr en þeir hafa uppfyllt sitt hlutverk sem slíkir.
En nú ber svo við að þeir eru óvenju margir og mér datt í hug leið til að nýta þá á hagkvæman hátt.
þegar ég var lítil stelpa (um 30 ár síðan) þekkti ég gamla konu, hana Ingu á Bjarkargötunni sem við mamma heimsóttum oft á sunnudögum.
Inga gamla var hálfblind en samt sem áður snillingur í höndunum og lét blinduna ekki aftra sér í að skapa hina fegurstu hluti úr allsskyns afgöngum sem til féllu.
Ég man sérstaklega vel eftir sundtösku sem hún hafði gefið mér og mér fannst svo merkileg fyrir þær sakir að hún var gerð úr plastpokum. Taskan var vatnsheld, falleg og litrík að sama skapi.
Inga hafði klippt plastpoka niður í ræmur og heklaði síðan úr ræmunum þessa líka fínu tösku sem ég átti svo í mörg ár.
Annað sem er mér minnisstætt um þessa yndislegu konu var það að hún var langt því frá að vera rík og hafði úr tiltölulega litlu að moða og því var nýtnin á heimilinu alveg á skjön við það sem flestir þekkja í dag, þar sem allir eru að drukkna í einnota drasli sem við erum í mesta basli með að losa okkur við.
Neyðin kenndi henni að spinna meðan ofgnóttin neyðir okkur til að finna leiðir til að losa okkur við "draslið" .... já eigum við ekki bara segja....á skapandi hátt.

2 ummæli:

Rúna Björg sagði...

Jú, Systa! Við ættum að finna ýmsar leiðir til að losa okkur við draslið á skapandi hátt. Það væri gaman að prófa að hekla úr plastpokaræmum. Kem með heklunálina upp í skóla við tækifæri.

Helen Sím. sagði...

Frábært! Ofgnóttin neyðir okkur að spinna af fingrum fram!
kv. Helen