föstudagur, janúar 19, 2007

Átakið hafið

Þá er átakið hafið.
Nú þreyjum við þorrann og góuna og kaupum ekkert nýtt dót.
Þátttakendur hittust á spjallfundi í hádeginu, gæddu sér á léttum veitingum sem voru í boði Rúnu Bjargar (jólapiparkökur o.fl.) og ræddu málin. Mikill hugur er í fólki og allir tilbúnir í slaginn. Það örlar ef til vill á smá kvíða hjá sumum þar sem það getur verið MJÖG erfitt að standast freistingar og neita sér um að kaupa eitthvað sem mann langar í eins og t.d. flatskjá!
Látið heyra í ykkur hvernig gengur (smellið á Umræður).

F.h. Þorra og Góu
Viggi

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja, fyrsti dagurinn í átakinu ekki á enda og ég er komin í vandræði. Mér var boðið í þrítugsafmæli og get ekki keypt neinn hlut handa afmælisbarninu. Ég var að hugsa um að kaupa eitthvað dekur - vona að það sé í lagi ykkar vegna.
kv. Helen

Nafnlaus sagði...

Langar þig voða mikið í flatskjá, Viggi?

Nafnlaus sagði...

Ég labbaði náttúrulega niður Laugaveginn þennan fyrsta dag átaksins til þess að kanna hvort þetta væri mikið mál, þ.e.a.s. að standast allar þessar sætu freistingar (allt þetta nauðsynlega dót). Ég fór inn í margar "dótabúðir" (og hugsaði um leið: hvað ef einhver úr hópnum sér mig og heldur að ég sé fallinn fyrsta daginn) þar sem mikið var af fallegum og nauðsynlegum varningi. Og viti menn og konur...ég stóðst allar freistingar!
En ég get alveg sagt ykkur, þetta var erfitt!

Kv.
Ljósálfur

P.S. Já Rúna, mig langar voða mikið í flatskjá!

Nafnlaus sagði...

Gott Vignir, þú stóðst þig vel.
Ég held ég haldi mér frá verslunum svona fyrst um sinn, sendi Svein í Bónus (þar eru líka freistingar, mikið af ónauðsynlegu drasli).

kv. Helen
ps. góð hugmynd hjá RLP tölvu"kalli" að setja teljara á síðuna, kunnið þið að gera það Rúna eða Vignir?

Nafnlaus sagði...

Já, góð hugmynd hjá ragnheiði. Ég fór inn á þessar síður áðan, en tókst ekki að setja teljarann inn á okkar síðu. Fann ekki út úr því hvernig ég get sett hann neðst á síðuna. Skoða þetta betur á eftir.

Aldeilis flott, Viggi. Best ég fara eina ferð niður laugaveginn á morgun.

Nafnlaus sagði...

Ekki byrjar það vel ! ...fyrsti dagurinn ekki að kvöldi kominn og ég strax komin í vandræði !
Einbeitt og full af eldmóð, arkaði ég út úr skólanum í dag, með heillaóski Helenar í bakið. Fullviss um að ég tæki nú eitt svona kaupbann á hælinn.
En ég var ekki komin út á Sundlaugaveg þegar unglingurinn minn, sem les fyrir stærðfræðipróf þessa dagana, hringdi í mig og sagðist vera búinn að týna vasareikninum og stærðfræðieinkunnin yllti á því hversu fljótt ég skaffaði annan.
Af eðlislægri samviskusemi...og hugsanlega líka vegna hræðslunnar um að vera nöppuð í einhverri ritfangavesluninn við vasareiknikaup, fól ég syninum að brjótast inn til afa síns og ömmu sem búa á efri hæðinni og dvelja á Cubu þessa dagana og athuga hvort afinn ætti ekki græju til að lána. Við komumst fljótt að því að gamli maðurinn hefur trúlega þurft á sínum vasareikni að halda til að breyta krónum í þar lenda mynnt. Minn vasareiknir er ekki nógu fullkominn fyrir framhaldskóla stærðfræði, vinirnir eru að fara í sama prófið og systir mín er eflaust að skíða með sinn vasareikni í Austurísku Ölpunum.
HVAÐ GERIR MAÐUR Í SVONA TILFELLI ??? ...fer í Griffil, lætur stráksa skjótast inn í búðina og bíður sjálfur úti í bíl í von um að samstarfsmenn manns eigi ekki leið hjá ?
...það gerði ég allavega... :o/
Á morgun mun ég ekki klæða mig, svo ólíklegra verði að ég verði teymd út í önnur og kannski enn nú alvarlegri kaup...
Kv. :o)

Nafnlaus sagði...

Já, og kannski einhver vildi senda mér aðgangsorðið að síðunni á heimanetfangið mitt... dammy@hive.is
Takk :o)

Nafnlaus sagði...

ja hérna. Þetta hafa verið vandræði. Tíminn er einmitt oft vandinn.
Þegar maður lendir i tímaþröng er oft fljótlegra að kaupa nýtt en að finna það gamla eða útvega sér annars staðar hlutinn.

það er eins gott að drengurinn fái 10! :-))

kv. Helen