sunnudagur, febrúar 25, 2007

Hversu mikið er nóg?

Ég var að skoða heimasíðu 'Never Enough?' campaign í Manchester á www.enough.org.uk

Erum við að uppfylla raunverulegri þörf með því að kaupa alla skapaða hluti og eiga allt til alls, nýja útgáfu af hinu og þessu. Eru þetta okkar eigin þarfir eða þarfir annarra? Hver ræður ferðinni í þessu neyslubrjálæði, þegar aðeins lítill hluti mannkyns gengur á meirihluta auðlinda jarðar?
Ég er ekki til í að neita mér um þau þægindi sem ég bý við. Ég vil eiga samskipti við fólkið mitt út í heimi, nota tölvuna, farsímann ... og ferðast, hlusta á tónlist alls staðar að úr heiminum, fara í bíó, keyra mig í matarboðið í Hafnarfirði ...
Til hvers erum við þá með þetta "vesen" í tvo mánuði? Erum við bara að þessu til að pína okkur? - Nei, er það? Erum við að sýnast? – Kannski?
Ég veit alla vega núna - og vissi svo sem áður, en hugsaði ekki um - að ég get verið ansi ánægð með lífið og tilveruna án þess að rjúka til og kaupa nýju útgáfuna af öllum sköpuðum hlutum. Það er allavega þess virði að íhuga hversu mikil efnisleg gæði við þurfum til að láta okkur líða vel.
Það er svo auðvelt að telja okkur trú um að meiri hamingja sé rétt handan við hornið og þangað komumst við með aðeins meiri vinnu, aðeins hærra kaupi (hættuleg umræða í kennarastétt) og aðeins meiri hraða. Það eru allavega nógu margir sem stunda þessa iðju - bæði að auglýsa hamningjuna og að elta hana.
Ég skal ekki segja hvað við gerum eftir þessa tvo mánuði. Kannski hlaupum við niður á Laugaveg og drekkjum okkur í drasli – eða er kominn tími til að meta hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm?

Er meira alltaf betra?

Rúna Björg

1 ummæli:

Helen Sím. sagði...

Váá maður! Þvílík ræða. Flott skrif Rúna.
Já, þessar vangaveltur og umræður eru nauðsynlegar. Fyrir hvern og fyrir hvað erum við að kaupa allt sem við kaupum. Er það stundaránægjan eða nauðsyn eða bara "uppfylling" (eitthvað til að fylla tómarúm hjá okkur).
Ég finn svo sem fyrir verslunarbanninu núna en ég á ekki von á því að ég eigi eftir að hlaupa niður Laugaveginn eða í IKEA að kaupa allt sem ég hef sleppt því að kaupa hingað til. Eða ég vona ekki.

Ég segi það með þér að ég er ekki til í að gefa upp öll þægindi en ég veit að ég get gert betur en hingað til (þ.e.a.s. áður en átakið hófst). Ég veit að ég hef sankað að mér ónauðsynlegum hlutum sem ég hef keypt eingöngu af því að aðrir hafa talið mér trú um að ég þurfi þessa hluti eða til að fylla upp í tómarúm.

kv. Helen