laugardagur, febrúar 03, 2007

Plastpokar eða innkaupatöskur


Hversu oft segjum við ekki "Heyrðu, viltu bæta einum plastpoka við...já, eða kannski tveimur" þegar við stöndum við afgreiðslukassann og erum að klára innkaupin okkar?
Ég las í bókinni "Change the World for a Fiver" að hver manneskja í Bretlandi notaði að meðaltali 134 plastpoka á ári eða 8 billjónir samanlagt!!! Og að það getur tekið um 500 ár fyrir plastið að eyðast eftir að það hefur verið urðað.

Hvað skyldum við Íslendingar nota marga á ári? Ef til vill eitthvað svipað og Englendingarnir, eða samanlagt eitthvað um 40.200.000 plastpoka?

Er ekki málið að fá sér innkaupatösku, notaða að sjálfsögðu...já, eða bara hanna eina og hrista hana síðan fram úr erminni. Þetta er meira að segja "inn" í Frakklandi!

Verum vistvæn í verki.

Kveðja frá Hlemmi +
Vignir Ljósálfur

P.S. Ég keypti mér nefnilega innkaupatösku á s.l. ári í Søstrene Grene...en gleymi alltaf að nota hana! Nú verður breyting þar á þar sem það er í anda hópsins okkar.

8 ummæli:

Helen Sím. sagði...

VÁHÁ þvílíkt magn af plastpokum!
Ég á einar þrjár innkaupatöskur og nota þær alltaf í stórinnkaupum. Hver innkaupataska tekur tvisvar sinnum meira en plastpoki svo ég er nokkuð ánægð með mig.
En það sem maður heyrir gjarnan er - "en hvað á ég þá að nota í ruslið?"
Ættum við ekki að geta losnað við allt RUSL og flokka allt? Það finnst mér. Það er að vísu er ekki hlaupið að því hér í borg.
Fyrir 16 árum var ég í Þýskalandi og þar voru heimilisruslaföturnar fjórskiptar. Erum við virkilega 16 árum á eftir áætlun?
kv. Helen

Rúna Björg sagði...

Í Yggdrasil er hægt að kaupa svona innkaupanet í stað plastpoka. Þar eru líka stundum seldir vistvænir pokar. Mér finnst eiginlega í lagi að kaupa svoleiðis í stað plastpoka, þ.e.a.s. ef maður á ekki innkaupatösku.

Já, erum við ekki svona langt á eftir þjóðverjum í umhverfismálum. Alla vega heimilin, enda voru þeir mjög fljótir að tileinka sér þessi mál.

Ef við flokkum sorp og förum með á Sorpu það sem þar er hægt að losa sig við, minnkar þörfin fyrir ruslapoka umtalsvert. Ég tala nú ekki um ef við getum líka losað okkur við lífrænan úrgang. Þá verður þetta allt mun snyrtilegra og minni "ruslalykt".

Helen Sím. sagði...

Vignir, mér líst vel á bókina sem þú nefnir þarna, Change the World for a Fiver. Það væri gaman að heyra meira um það hvernig við getum breytt heiminum fyrir lítið.
kv. Helen

Nafnlaus sagði...

Það eru nú ekki allir jafn mikið á eftir! Ég bý í Eyjafjarðarsveit og hér flokkum við allt sorp, allt gler og dósir sér, pappír sér, fernur sér og svo eru flestir með moltukassa og þá er nú ansi lítið rusl eftir. Þegar ég hóf þessa flokkun, fór 1/3 í ruslið, hitt fór í flokkun, sem áður hafði allt farið í ruslið. Munar um minna. Svo var ég um tíma með hænur í stað moltukassa og þær átu allt matarkyns. Nú þarf ég að koma kassanum í gagnið á ný fyrir lífræna úrganginn.
Sveitarfélagið hér er allt sameinað í þessum umhverfisvænu þáttum.
Kveðja frá Bryndísi Helenarsystur.

Nafnlaus sagði...

Hæ!
Ég er nú alveg til að leggja mitt af mörkunum í umhverfismál EN ég er ekki til í að þrífa upp hundaskít öðruvísi en að hafa poka.

Hundurinn framleiðir "súkkulaði" á hverju horni.
Og þó svo að maður flokki rusl er alltaf þörf á pokum.
Ekki nema að við fáum svona sérstaka poka eins og Laugarnesskóli er með fyrir lífræna úrganginn!
kv.
RLP

Gunna sagði...

Þetta er frábær umræða. Gleymum því ekki heldur að plastpoka er hægt að nota oftar en einu sinni. Það fer ekki mikið fyrir einum í vasanum eða töskunni það hefur hún mamma verið að reyna að kenna mér í mörg ár. Þeir sem eru á bíl að staðaldri geta auðveldlega haft poka (hvort sem er plastpoka eða innkaupatuðru) í bílnum hjá sér. Sjálf nota ég plastpokana að lokum í ruslið en það er óþarfi að safna þeim upp á heimilinu og heilum pokum þarf ekki að henda.
Kv Gunna

Nafnlaus sagði...

innkaupapoka þarf ekki einu sinni að kaupa ef maður kann að sauma er hægt að sauma fína innkaupapoka úr afgangsefnum eða t.d gömlum gardínum sem eru til á mörgum heimilum.
Ég á t.d. voða fínan marimekko poka sem ég saumaði uppúr gömlum gardínum. Ég gæti saumað poka fyrir fólk ef það er í algjörum vandræðum.

Rúna Björg sagði...

Frábært hugmynd, þá er bara að kíkja í tuskupokann og aldrei að vita nema nú sé kominn tími á innkaupapokahönnunarkeppni! Viggi, er það ekki þín deild?