fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Presque rien - næstum því ekki neitt

Ég er eins og þið hin, vona ég, dálítið upptekin af þessum nýja hugsunarhætti okkar og finn víða tengingar við "meinlætalífið" - sem mér finnst svo sem ekkert meinlætalíf, heldur kjörið tækifæri til að verja tímanum í það sem mig langar til að gera.

Nema hvað frétt í laugardagsmogganum um sýningu í Nýló, Laugavegi 26, vakti athygli mína. Presque rien - næstum því ekki neitt heitir hún og minnir á að við getum gert svo merkilega hluti úr næstum engu eða með því að gera næstum ekki neitt eða eins og segir í greininni: „Næstum því ekki neitt, það er ekki ekki neitt.“
Hér er umfjöllun um sýninguna af www.nylo.is: „Ætlunarverk sýningarinnar er að afhjúpa svo ekki verði um villst hversu lifandi og öflug hin stöðuga sköpun, sem Robert Filliou var svo kær, er enn hjá listamönnum okkar tíma. Miðpunktur sýningarinnar er listaverkið Poïpoïdrome, sem Robert Filliou og Joachim Pfeufer skildu eftir í Nýló árið 1978. Kringum verkið munu þekktir franskir myndlistarmenn bregða á leik og koma þannig hugmyndinni um "République Géniale" ?("Snilldarlega Lýðveldið") enn lengra, í þágu mannkynsins. Orðatiltæki Fillious, og lykilorð eins og Virkur, Breytilegur, Hreyfing, Orka, Árangur, Nægjusemi, Flæði, Hverfulleiki og Innskot munu leggja undir sig sýningarsvæðið. Sýningin snýst ekki um að fylla rýmið af verkum, heldur að horfast í augu við listsköpunina, í sinni nöktustu mynd, og brosa til hennar, eða ekki. "að gera næstum því ekki neitt, það er það sem listamennirnir gera", hefði Filliou getað sagt.“

Rúna Björg

1 ummæli:

Helen Sím. sagði...

Já það er næstum skyldu heimsókn á Nýlistasafnið.
Ég ætla pottþétt að sjá hvernig listamönnunum gengur að búa til úr næstum því engu.
Okkur í Þorra og góu hefur nú gengið alveg ágætlega að gera það, miðað við hvernig fólki hefur gengið að finna gjafir til dæmis.

kv. Helen