laugardagur, september 27, 2008

Húrra fyrir kreppunni

Á þessum síðustu og verstu tókst að vekja upp gömlu góðu vini okkar. Hjúin, Þorri og Góa, rötuðu í Fréttablaðið og á Rás 2 í vikunni. Í Fréttablaðinu á þriðjudaginn er umfjöllun um kaupleysið okkar og líka í þættinum hans Felix á Rás 2 í morgun.
Þetta hefur eins og áður vakið mikla athygli, en það eru svo sannarlega aðrir tímar í dag en þegar við stengdum þess heit að draga úr neyslu á þorranum 2007. Þá tókum við, eins og svo margir aðrir, þátt í gengdarlausu neyslufylleríi í góðærinu. Mörgum félögum okkar þótti þetta heldur furðulegt uppátæki. Sumir veltu því meira að segja fyrir sér hvort við ætluðum að setja hagkerfið á hvolf með því að hvetja fólk til að hætta að halda hjólum kapitalismans gangandi.
Viðbrögðin eru önnur í dag og mun fleiri sem hugsa sig um áður en rokið er út að eyða peningum. Þurfti sem sagt krepputal og allt sem því fylgir til að stoppa þessa yfirgengilegu neyslu?
En eru þetta í raun verri tímar en áður? Það þýðir alla vega ekkert annað en að gera gott úr þessu og kíkja í geymsluna, byrja aftur á því að breyta, bæta, endurnýta og gefa!
Munum líka að gefa tíma, gæðastundir með þeim sem okkur þykir vænt um eru ómetanlegar.
Rúna Björg