laugardagur, janúar 27, 2007

Ég rölti i bæinn og.....

... stóðst allar freistingar. En það er ekki heiglum hent að ganga niður Laugaveginn og versla ekki neitt. Það eru ÚTSÖLUR ÚTSÖLUR á hverju götuhorni. Allt að 30%, 50% og 80% afsláttur! Það var sérstaklega erfitt að skoða allar bækurnar sem eru á útsölu (ég fór í allar bókabúðirnar í miðbænum).
Ég get rétt ímyndað mér að það hlýtur að vera sérstaklega erfitt fyrir þá sem eru með kaupæði. Og talandi um kaupæði, þá er mjög góð grein um það í helgarblaði DV þar sem Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur svara spurningum um þessa fíkn. Ég er örugglega með snert af kaupæði!
Reynið endilega að verða ykkur úti um eintak. Eins og ég segi, þá er þetta athyglisverð lesning. Ef þið eruð ekki áskrifendur þá má nálgast blaðið á bókasöfnum, veitingastöðum eða bara hjá vinum og vandamönnum þar sem dagblöð hljóta að vera á lista yfir bannvörur...er það ekki annars?.

F.h. Þorra og Góu
Vignir Ljósálfur

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já Viggi, þú ert örugglega með snert af kaupæði! Ég fór líka í bæinn í dag og leið ótrúlega vel að "þurfa" ekki að kaupa neitt á útsölunum.
Fór inn í eina antikverslun og fram hjá safnarabúðinni. Ætla mér á næstunni að skoða betur allar búðir sem selja notaðar vörur.
Það er "antikmarkaður" í Skúlagötu. Þar ætla ég að athuga með sófa, en fjölskyldan og aðrir gestir vilja endilega að ég fari að fá mér sófa.
Annars líður mér almennt vel með þessa ákvörðun, nýt þess að dunda mér við eitthvað sem mér þykir gaman að gera, fer í bíó, út að ganga, fékk með ferlega girnilega tertusneið í Sandholt... og skoðaði margar vefsíður á þessari línu okkar í dag. Mæli t.d. með Adbusters og er að leyta að fleiri síðum og hópum sem segja markaðsvæðingunni stríð á hendur.
Viggi, ég mæli með einhverju af þessum ráðum. Nú og svo get ég lánað þér sparibækurnar mínar, hvað langar þig að lesa?

Helen Sím. sagði...

Þú stendur þig vel Vignir, að falla ekki í gryfju kaupmannanna sem lokka þig með gylliboðum. Sjálf er ég veik fyrir að kaupa bækur og svo eitthvað sem gleður börnin.

Ég hef ekki farið í bæinn eða í verslanir þessa viku sem við höfum verið í átakinu en mér finnst léttir að fletta blöðunum og sjá öll þessi "kostaboð" kaupmannanna og vera laus við að leita að einhverju til að kaupa. Oftar en ekki skoða ég svona auglýsingar og bæklinga og ómeðvitað að leita að einhverju sem mig mögulega vantar! Algjör gerviþörf.

Vignir Ljósálfur sagði...

Takk fyrir að bjóða mér bækur til lestrar Rúna. En það er ekki eins og ég eigi ekki nóg af bókum...bókum sem ég hef ekki lesið. Ég byrja kannski á einni bók, sé svo aðra í bókabúð sem mér finnst meira spennandi, kaupi og byrja að lesa hana! Nú er svo komið að það eru 13 bækur á náttborðinu hjá mér, ó- eða hálf lesnar. Þannig að nú fæ ég gott tækifæri til að klára þessar bækur.
Rúna, þú nefndir "Adbusters" netsíðuna. Ég er alveg sammála þér, skemmtileg síða og heilmargt að skoða. Það var sérstaklega eitt sem vakti áhuga minn en það var sjónvarpsbann í viku. Það er kannski eitthvað sem hópurinn vill skoða nánar.

Kveðja
Ljósálfur

Rúna Björg sagði...

Já, Viggi, ætli við "græðum" ekki mikinn tíma fyrir bíóferðir, heimsóknir, spil, lestur o.fl. skemmtilegt ef við horfum ekkert á sjónvarp í viku?

Helen Sím. sagði...

Já ég hef lengi hugsað um sjónvarpslausa viku.
Það yrði smá mál fyrir strákana mína og mig en Sveinn yrði bara feginn. Vinkona mín hafði sjónvarpslausan mánuð á heimilinu sínu í einn mánuð, nóvember síðasta. Þetta gekk bara vel en ég myndi fyrst prófa í viku og sjá svo til.
Þetta er reynandi.
kv. Helen

Rúna Björg sagði...

Hér er slóð þar sem hægt er að skipta á kiljum (bókum). Veit ekki meir, en kannski einhver ykkar nenni að skoða vefinn.
http://www.paperbackswap.com/index.php