laugardagur, mars 17, 2007

Næstu skref?

Það er ýmislegt sem okkur hefur dottið í hug að gera í framhaldi af kaupum ekkert átakinu. Reyndar held ég að fæst okkar fari aftur í saman gamla farið og dembi sér á bólakaf í neyslu. Sumir ætla að kaupa sér nýja skó, aðra þyrstir mjög í nýjar bækur, enn aðrir ætla að láta reyna á kauplausa daga, vikur eða mánuði áfram.

En við erum ekkert á því að gefast upp, er það nokkuð? Við erum líka mikið fyrir tilbreytingu í lífinu.
Þessi hugmynd kom upp á Hljómalind á fimmtudaginn:
Átaksvikur í anda verkefnisins.
Vikulega yrði dregið um átak. Ég legg til að við drögum um nýtt átak t.d. fyrri hluta vikunnar, söfnum saman upplýsingum til að setja út á síðuna okkar og átaksvikan hæfist annað hvort í vikulokin eða á sunnudegi.

Hér eru nokkrar hugmyndir sem við gætum tekið fyrir, ég man auðvitað ekki eftir öllu, en þið verðið að bæta því við sem gleymist.

Kláraðu matinn þinn úr skápunum - það flæðir eflaust út úr frystinum og búrskápnum hjá mörgum og ekki úr vegi að kaupa mun minna af matvælum í eina viku en við erum vön.

Að komast í gömlu fötin - er það ekki í anda átaksins að borða hollari mat og hreyfa sig meira með það að markmiði að komast aftur í eitthvað af því sem við komumst ekki lengur í?

Getum við gert eitthvað í sambandi við auglýsingar? Er hægt að kaupa eingöngu vörur sem ekki eru auglýstar? Gæti orðið erfitt, mjólkin er meira að segja auglýst, en er lífræna mjólkin líka auglýst?

Eiturefnalaus vika – veljum matvæli án rotvarnarefna, hreinlætisvörur o.fl. sem er með umhverfismerkjum.

Endurvinnsla – flokkum allt sorp í viku, nýtum alla flokkana í sorpu og ekkert svindl. Kannski komast líka flest okkar einhversstaðar í jarðgerðartunnu. www.sorpa.is

Fair trade – á www.rapunzel.com/nature/nature_practices.html má lesa aðeins um það og svo sáu sumir danska þáttinn um vestræna framleiðslu á Indlandi í vikunni.

Forgangsraðaðu í lífinu – setja það sem okkur þykir vænst um og mikilvægast í 1. sæti og sinna því vel.

Gefum eitthvað sem við eigum – eiga ekki allir hluti sem þeir eru löngu hættir að nota, en aðrir gætu hugsað sér að eiga?

Gerum við hluti – það hljóta allir að eiga eitthvað bilað, brotið eða rifið sem má gera við. Það eru svo margir laghentir í þessum hópi.

Grænmetisætur – það má komast að því á www.ecofoot.org að grænmetisætur nota mun minna landsvæði á þessari jörð en aðrir.

Grænt skrifstofuhald – um það má lesa á http://landvernd.is/vistvernd/

Höfum áhrif á aðra, höfum áhrif á stjórnmálamenn – kosningar framundan og ekki úr vegi að nota tækifærið til að koma skoðunum sínum á framfæri. Annars má líka smita hvern sem er af þessari dellu okkar.

Kaupum ekki brauð, bökum það – þessi hugmynd kviknaði út frá umræðu um hvernig mætti hafa áhrif á hátt vöruverð á matvælum.

Orkusparnaður –sleppa þurrkaranum, setja sparperur í öll ljós, muna að slökkva á rafmagnstækjum eftir notkun, taka hleðslutæki úr sambandi, ...

Samgöngur – sumir geta hjólað, aðrir gengið, notað strætó eða rútna, enn aðrir vanið sig á sparakstur á eigin bíl!

Sjónvarpslaus vika – á www.adbusters.org má lesa meira um það.

Verslum í heimabyggð og notum vörur framleiddar í heimabyggð – á www.ecofoot.org er talað um matvæli sem ekki hafa verið flutt lengra en 300 km.

Hvað finnst ykkur? Þeir sem hafa þorra og góu aðgangsorðið geta bætt við listann hér í þessari færslu. Aðrir geta bætt við hugmyndum í athugasemdum og ég bæti þeim inn á listann.

f.h. Þorra og Góu
Rúna Björg

27 ummæli:

Margrétarblogg sagði...

* sjónvarpslaus vika
* enginn bíl í eina viku
* ?
Það er svo margt sem að kemur til greina. Eins og kom frá á kaffihúsinu þá ætla ég að halda áfram með að búa til eða að kaupa "hlutlausar" gjafir út árið til tilraunar.

Margrétarblogg sagði...

Er ekki hægt að editera komment ?

Leiðrétting á fyrri færslu:
"kom fram á ...."
mbk
margré´t

Nafnlaus sagði...

Úff, þetta var erfitt, það virðist vera mjög erfitt að koma færslu inn á síðuna snemma á laugardagsmorgni. En hér er sem sagt færslan í heild sinni.
Margrét það er hægt að eyða út kommenti, en mér hefur ekki tekist að leiðrétta þau. Það er alla vega hægt að eyða út færslum á þorra og góu aðganginum. á nokkuð að eyða þessum færslum þínum út?
Rúna Björg

Margrétarblogg sagði...

Þetta sleppur til. Við getum líka gert skoðanakannanir á blogginu okkar. Um eitt og annað.
Á hverju vill fólk byrja ?
Ég er nú þegar farin að undirbúa mig andlega undir meiri flokkun en þegar er. Svo langar mig til að safna fyrir hreyfilhitara í bílinn. Það eru mörg markmið sem bíða síns tíma til framkvæmda. Ég spurði manninn minn hvort að hann myndi vera tilbúinn til að fara í Vistvernd í verki og hann þarf að hugsa málið............. ég geri það ekki nema að hann sé með.

Helen Sím. sagði...

Fann síðu sem heitir "TV turnoff"
Vikuna 23 - 29 apríl 2007 er fólk hvatt til að hafa slökkt á sjónvörpum. Til að vekja fólk til umhugsunar, fólk er hvatt til að ná stjórn á tækninni og láta ekki tæknina stjórna lífi þess.

http://www.tvturnoff.org/

Á síðunni eru veggspjöld og viðukenningaskjöl (á ensku auðvitað). Gæti verið gaman að gera svolítið úr þessu.
Mín tillaga er að við höfum sjónvarpslausa viku 23. - 29. apríl 2007

kv. Helen

Rúna Björg sagði...

Það svo merkilegt að einhvers staðar virðist einhver vera að hugsa um það sama og þú á sama tíma.
Mér, óvirku grænmetisætunni, fannst ágætt að komast að því á ecofoot.com að grænmetisætur hafa minni neikvæð áhrif vistkerfið en aðrir, en var hálf svekkt að hafa ekki meiri upplýsingar um málið.
Haldið þið ekki að ég hafi fengið póst frá græna hlekknum í gær um einmitt þetta mál: "Matarvenjur þínar hafa áhrif á umhverfið. Ef þú hættir neyslu dýraafurða hefur það jákvæð áhrif á vistkerfi jarðarinnar."
Þetta er dálítið löng umfjöllun og nú verð ég að finna henni stað hér á síðunni okkar. Reyni að búa til einhverskonar tengil á hana.

Helen Sím. sagði...

Rúna, ég "googlaði" heitið sem þú nefndir og fann grein á bloggi.
http://estersv.blog.is/blog/estersv/entry/133332/
skrifað 26. febrúar. Nokkuð ítarleg samantekt af áhrifum matarvenja á umhverfið.
kíkið á og lesið.
kv. Helen

Margrétarblogg sagði...

Ég held að þetta sé sama lesningin og við Rúna fengum í sendingu frá Akri.

Helen Sím. sagði...

Ég er mjög hlynnt því að hafa bíllausa viku en.... á þriðjudögum og föstudögum get ég ekki annað en notað bílinn. Sonurinn á að fara á básúnuæfingu og ég hef 25 mín til að ná í hann og koma honum á staðinn. (þarf s.s. að fara frá Laugarnesinu í Hlíðarnar og til baka) Ég hef verið að hugsa um leiðir til að redda þessu en sé ekkert út úr því. Við getum ekki hjólað með básúnuna (hún er nokkuð stór og í óhentugum kassa) og við myndum aldrei ná að ganga þetta á 25 mín þó að við vildum. En ég er til í að vera lengur í bíllausa átakinu en hinir til að bæta það upp ef það er samþykkt.
kv. Helen

Rúna Björg sagði...

Þú lærir þá sparakstur, Helen! Það eru til leiðbeiningar hjá landvernd.
Þetta verður allt að vera dálítil áskorun.
Mér finnst líka gaman að hafa þetta tilviljanakennt og draga úr krukku hvaða átak við förum í næst, sumt gengur auðvitað betur hjá þér og annað hjá einhverjum öðrum.

Margrétarblogg sagði...

Frábær hugmynd að draga úr krukku !
Í sambandi við bíllausa viku þá getur það skipt verulegu máli hvenær ársins hún væri ! Sjónvarpslausa vikan er síðasta vikan í apríl og þá er verulega farið að birta og það ætti að auðvelda verkefnið.

Helen Sím. sagði...

ÍSÍ er með HJÓLAÐ Í VINNUNA átak dagana 2 - 22. maí. Getum við haft eina viku þá bíllausa?
kv. Helen

Nafnlaus sagði...

Frábærar hugmyndir hérna og gaman að fylgjast með.
Væri kannski sniðugt að vera búin að ákveða hvaða hvað átak er í gangi hvaða viku - n.k. stundatafla? T.d. væri vika 17 þá sjónvarpslaus, vika 16 bíllaus, vika 18 xxlaus o.s.frv...
Ég bý í blokk og langar alveg óskaplega að koma af stað umræðu/þátttöku í að setja upp jarðgerðarkassa út á lóð. Þangað gæti hver og einn farið með matarafganga og annað sem ætti heima þar (sniðugt að virkja krakkana líka). En það þarf auðvitað að hugsa um þetta, moka á milli hólfa og slíkt.
Mér datt líka í hug að koma upp "bókakössum" í sameigninni í hverjum stigagangi. Þangað væru settar þær bækur sem maður vildi ekki eiga og hver og einn gæti valið sér það sem honum litist á til að lesa og skilað þess vegna aftur eða átt. Ef þetta færi að hlaðast upp - nú þá væri bara rúllað með það í Góða hirðirinn.
Kv. Gústa

Nafnlaus sagði...

Mikið eru þetta frábærar hugmyndir hjá ykkur. Þið eruð ótrúleg. Ég er örugglega til í að halda þessu áfram í þessu formi sem þið nefnið hér ásamt því að eltast við neysluspornun fram á vor, sumar, haust og jafnvel vetur :)
Kveðja Linda

Nafnlaus sagði...

Það væri nú ekki leiðinlegt að búa í blokkinni með þér, Gústa!
Mér finnst einmitt tilvalið að fá jarðgerðarkassi í blokk, en það er rétt það þarf einhver að hugsa um hann. Það er heldur ekki gott að eiga við of stóra kassa, þ.e. ef of margir eru um hann. Við vorum með jarðgerðakassa í skólanum, en sendum nú lífræna úrganginn frá okkur því þetta er of stórt apparat fyrir svona heimiliskassa. En það eru nú varla svo margir íbúar í blokkinni.

Við verðum þá alla vega tvær áfram í kauplausu átaki, Linda. Ég ákvað að láta reyna á það hvað ég kemst upp með að kaupa ekkert í langan tíma í viðbót.

Nú verðum við að taka ákvörðun á morgun með framhaldið.

Margrétarblogg sagði...

Ég klára 39. árið með sjónvarpsleysi og byrja fertug á því að hjóla í vinnuna. Mér líst vel á þetta.
Erum vð þá ekki bara strax komin með 2 vikur ?

Ég verð svo í bænum á þriðjudagskvöldum næstu sex vikur ef að ykkur dytti í hug annar hittingur.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta allt frábærar hugmyndir. Það er þó misjafnt hvernig þetta hittir okkur. Ég er ákveðin í að kaupa mér ekkert nema ég þurfi á því að halda. ÞAð er dálítið erfitt með unglingana mína, tvíbura á fimmtánda ári en mun halda því að þeim líka eins og ég hef reyndar alltaf gert.
Ég hef áhuga á að vera í visthópi en það er ákvörðun sem þarf að taka sameiginlega á heimilinu og verður að ræða um áður. Kem því að hjá manninum mínum. .
KV
Gunna

Nafnlaus sagði...

*þurrka svita*

Ég komst að því í dag að ég gat ekki verið númer 5000 en ég gat verið númer 5100;o)

RLP

Nafnlaus sagði...

Ég hafði einu sinni sjónvarpslausa sunnudaga í einn vetur sem gekk mjög fékk þangað til "við" féllum.
Ég skil ekki af hverju, því ég er ekki mjög mikið fyrir tékkneskar fræðslumyndir.

Í alvöru... þá var ein vinkona mín sem sagði.

Og hvað gerðuð þið?
Þurftir þú að byrja að tala við maka þinn aftur?

Þetta lét mig hugsa...já, kannski að maður slökki á imbanum og fari að tala við makann aftur og EF hann er leiðinlegur slekk ég á honum og kveiki á sjónvarpinu aftur.

Snilld...alltaf val!
kv.
RLP

Nafnlaus sagði...

Er ekki best að við komum okkur upp krukku á kaffistofunni í Laugarnesinu og setjum hugmyndirnar í hana og drögum fyrsta átakið fyrir helgi? Ragnheiður, þú athugar þá að skipta út makanum ef á þarf að halda fyrir sjónvarpslausu vikuna. Ég er svo sem alveg til í að hafa hana á saman tíma og adbuster vikan er í apríl. Reyndar er það óþægilega nálægt kosningum og erfitt að missa af þeim þáttum.
En ég kem með krukku og miða á morgun, við getum þá ákveðið eitthvað.

Nafnlaus sagði...

Ég er með hugmynd. Við í þessum hópi og fleiri ættum að sniðganga stóru olíufélögin (Skeljung, Olíufélagið og Olís) sem höfðu með sér samráð um að okra á okkur neytendum. Ekki kaupa neitt af þeim, ekki bara í viku heldur það sem eftir er.
Þetta skrifa ég eftir að hafa horft á fórnarlambsviðtal sem birtist í Kastljósi í kvöld þar sem Kristinn Björnsson sat fyrir fórnarlambssvörum, me, me.

Með bensínlausum bjartsýniskveðjum, Leifur

Margrétarblogg sagði...

Það er ekkert annað í boði hér á Selfossi en SOO !

Nafnlaus sagði...

Er eitthvað að frétta af drættinum góða? Er orðin spennt að sjá hvað kemur upp úr krukkunni :)
Kveðja Linda pinda pæ

Rúna Björg sagði...

Hugmyndin hans Leifs er komin í krukkuna.
Mundu að taka bensín þegar þú bregður þér af bæ, Margrét!

Nafnlaus sagði...

Humm, þetta þýðir að ég verð að hafa áhrif á aðra en mig sjálfa ef ég þigg far hjá einhverjum þar sem ég er annað hvort á hjóli, gangandi eða ferðast með strætó. Gæti verið skemmtileg áskorun atarna!
Kveðja Linda.

Helen Sím. sagði...

Átak næstu viku er að taka upp heilbrigðara líferni, borða hollari mat og hreyfa sig meira.
Við gerum okkur grein fyrir því að vika í svona átaki skilar kannski ekki neinu en við erum að prófa að taka okkur á í þeim þáttum sem við erum löt að gera eitthvað í. Sumir ætla sér að sniðganga allt sælgæti, aðrir ætla að hreyfa sig meira, enn aðrir ætla að taka allan pakkann.
Hver og einn ákveður fyrir sig í hverju hann þurfi að bæta sig varðandi heilbrigðara líferni og taka á því.
Ég ætla t.d. að sniðganga kökur á kennaraskrifstofunni (geðveikar kökur á hverjum degi í Laugarnesskóla, mjög hættulegt) og ég ætla að hreyfa mig meira og borða bara ávexti í 10-kaffinu.
kv. Helen Sím.

Nafnlaus sagði...

I would like to exchange links with your site thorrioggoa.blogspot.com
Is this possible?