sunnudagur, mars 04, 2007

Á ég að gefa þér garn?

Ég sat á kennarastofunni í síðust viku og heklaði - úr plastpokum. Sessunautur minn hallaði sér að mér og hvíslaði: Á ég að gefa þér garn Guðrún?
Já það þykir sumum undarlegt uppátæki að hamast við að vinna nytjahlut úr drasli eins og plastpokum. Ég á hins vegar allnokkuð af garni og ýmsum efnum sem bíða bara eftir að úr þeim verði unnið. Þá er líka eitthvað til af hálfunnum munum sem ekki tókst að ljúka við áður en ný hugmynd fæddist. Ég er örugglega ekki ein um að fá hugmyndir hraðar en hendurnar geta unnið úr.
Ég hafði hins vegar á tilfinningunni að sú sem bauðst til að gefa mér garnið hafið fundið til mér vegna verslunarbannsins! Málið er hins vegar að mér finnst mér engin vorkunn. Börnin mín eru hins vegar farin að spyrja hvenær þetta verði búið. Enda vita þau að ekkert þýðir að biðja um neitt þessa dagana. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að maður verði að endurnýja það sem gengur úr sér. Annars hafa krakkarnir líka gott af því að hugsa um þetta.
Það hvað verið er að hekla kemur hins vegar í ljós á allra næstu dögum.
Kveðja
Gunna

5 ummæli:

Rúna Björg sagði...

Já, það er ég sannfærð um að krakkarnir hafa líka gott af því að hugsa um þetta! En, jú verða þau ekki að fá einhvern til að endurnýja það sem er úr sér gengið - sérstaklega þegar fötin bókstaflega springa utan af unglingunum og nokkuð mörg ár síðan stóri bróðir var á svipuðum aldri?

Nafnlaus sagði...

Finnst þetta frábært hjá þér að hekla úr plasti, er bara ábyggilega soldið erfitt, ertu ekki með nál nr. 10! Tók mig einu sinni til líka og heklaði litla mottu úr gömlum blettóttum stuttermabolum (t-shirts) sú motta tók við ótrúleg mikilli drullu. Vorkenni krökkunum þínum nú voða lítið :) eru þau ekki stolt af sjálfum sér þegar þau geta lagt eitthvað af mörkum?

Nafnlaus sagði...

Eruð þið að lýjast elskurnar? Þið eruð orðin eitthvað svo andlaus. Skrifið mun sjaldnar og færri í umræðum. Er kaupsveltið farið að segja til sín? Orðin þreklaus af hungrinu? Nei, ég segi svona!!! Það líður eitthvað svo langt á milli pistla.
Ég er sko ekki með, ég bara kaupi ekkert.
Kveðja frá Bryndísi Helenarsystur

Helen Sím. sagði...

Já við höfum verið ægilega andlaus í skrifunum. Hvort að það sé vegna þess að við erum orðin þreytt á að kaupa ekkert eða vegna þess að við erum orðin svona vön því að kaupa ekkert að okkur finnst við ekkert hafa að segja skal ég ekkert segja um. En við erum EKKI fallin það get ég sagt ykkur.
Ég keypt mér tvo jakka um daginn..... alveg róleg ég keypti þá hjá Rauða krossinum niðri á Laugavegi. Fínir jakkar. Ég fékk samt alveg þessa tilfinningu "Hvað get ég keypt?".
Það er nú ekki svo langt eftir og hver veit hvað maður gerir þá :-))

Rúna Björg sagði...

Tja, kannski er þetta allt orðin rútína og nýja brumið farið af þessum nýju viðhorfum okkar? Ég skal ekki segja.

En gott að vita af þessum systrum "sem eru sko ekki með", Bryndís. Ég á líka eina slíka.