Það er ýmislegt sem okkur hefur dottið í hug að gera í framhaldi af kaupum ekkert átakinu. Reyndar held ég að fæst okkar fari aftur í saman gamla farið og dembi sér á bólakaf í neyslu. Sumir ætla að kaupa sér nýja skó, aðra þyrstir mjög í nýjar bækur, enn aðrir ætla að láta reyna á kauplausa daga, vikur eða mánuði áfram.
En við erum ekkert á því að gefast upp, er það nokkuð? Við erum líka mikið fyrir tilbreytingu í lífinu.
Þessi hugmynd kom upp á Hljómalind á fimmtudaginn:
Átaksvikur í anda verkefnisins. Vikulega yrði dregið um átak. Ég legg til að við drögum um nýtt átak t.d. fyrri hluta vikunnar, söfnum saman upplýsingum til að setja út á síðuna okkar og átaksvikan hæfist annað hvort í vikulokin eða á sunnudegi.
Hér eru nokkrar hugmyndir sem við gætum tekið fyrir, ég man auðvitað ekki eftir öllu, en þið verðið að bæta því við sem gleymist.
Kláraðu matinn þinn úr skápunum - það flæðir eflaust út úr frystinum og búrskápnum hjá mörgum og ekki úr vegi að kaupa mun minna af matvælum í eina viku en við erum vön.
Að komast í gömlu fötin - er það ekki í anda átaksins að borða hollari mat og hreyfa sig meira með það að markmiði að komast aftur í eitthvað af því sem við komumst ekki lengur í?
Getum við gert eitthvað í sambandi við
auglýsingar? Er hægt að kaupa eingöngu vörur sem ekki eru auglýstar? Gæti orðið erfitt, mjólkin er meira að segja auglýst, en er lífræna mjólkin líka auglýst?
Eiturefnalaus vika – veljum matvæli án rotvarnarefna, hreinlætisvörur o.fl. sem er með umhverfismerkjum.
Endurvinnsla – flokkum allt sorp í viku, nýtum alla flokkana í sorpu og ekkert svindl. Kannski komast líka flest okkar einhversstaðar í jarðgerðartunnu. www.sorpa.is
Fair trade – á www.rapunzel.com/nature/nature_practices.html má lesa aðeins um það og svo sáu sumir danska þáttinn um vestræna framleiðslu á Indlandi í vikunni.
Forgangsraðaðu í lífinu – setja það sem okkur þykir vænst um og mikilvægast í 1. sæti og sinna því vel.
Gefum eitthvað sem við eigum – eiga ekki allir hluti sem þeir eru löngu hættir að nota, en aðrir gætu hugsað sér að eiga?
Gerum við hluti – það hljóta allir að eiga eitthvað bilað, brotið eða rifið sem má gera við. Það eru svo margir laghentir í þessum hópi.
Grænmetisætur – það má komast að því á www.ecofoot.org að grænmetisætur nota mun minna landsvæði á þessari jörð en aðrir.
Grænt skrifstofuhald – um það má lesa á http://landvernd.is/vistvernd/
Höfum áhrif á aðra, höfum áhrif á stjórnmálamenn – kosningar framundan og ekki úr vegi að nota tækifærið til að koma skoðunum sínum á framfæri. Annars má líka smita hvern sem er af þessari dellu okkar.
Kaupum ekki brauð, bökum það – þessi hugmynd kviknaði út frá umræðu um hvernig mætti hafa áhrif á hátt vöruverð á matvælum.
Orkusparnaður –sleppa þurrkaranum, setja sparperur í öll ljós, muna að slökkva á rafmagnstækjum eftir notkun, taka hleðslutæki úr sambandi, ...
Samgöngur – sumir geta hjólað, aðrir gengið, notað strætó eða rútna, enn aðrir vanið sig á sparakstur á eigin bíl!
Sjónvarpslaus vika – á www.adbusters.org má lesa meira um það.
Verslum í heimabyggð og notum vörur framleiddar í heimabyggð – á www.ecofoot.org er talað um matvæli sem ekki hafa verið flutt lengra en 300 km.
Hvað finnst ykkur? Þeir sem hafa þorra og góu aðgangsorðið geta bætt við listann hér í þessari færslu. Aðrir geta bætt við hugmyndum í athugasemdum og ég bæti þeim inn á listann.
f.h. Þorra og Góu
Rúna Björg