sunnudagur, apríl 22, 2007

Sjónvarpslaus vika

Já nú fer sjónvarpslausa vikan að byrja. Á Adbuster er sjónvarpslausa vikan frá 23. - 29. apríl, byrjar sem sagt á morgun. Þetta á eftir að vera sú vika sem mér á eftir að finnast erfiðust af öllum smátökum og stórtökum. Mér líður alla vega vel að hún byrjar ekki í dag („Ég ætla að hætta að drekka á morgun“ syndrome).
Kíkið á auglýsingar á Adbuster um sjónvarpsgláp - mjög góðar. http://www.adbusters.org/metas/psycho/tvturnoff/
Aftur spyrja einhverjir; „Hvers vegna sjónvarpslaus í viku?“ „Hefur það eitthvað með umhverfisvernd að gera?“
Það hefur kannski óbein áhrif á umhverfið því að við erum miklir neytendur og sjónvarpið er einn miðill margra sem dælir upplýsingum um vörur og vörumerki til okkar. Markaðsöflin eru mjög góð í að sannfæra okkur um að okkur vanti þetta og hitt með fallegum auglýsingum og við látum glepjast. Það má segja að þetta sé beint að markaðsöflunum. Það sparar orku, já Vignir og það sparar mikla orku ef það er ekki kveikt á flatskjánum.
Persónulega er að losa um „hálsólin“ sem ég er tengd við sjónvarpið - gera eitthvað annað og meira uppbyggjandi en að glápa

Á Adbuster er viðtal við Rúnu okkar Björgu Garðarsdóttur: http://adbusters.org/the_magazine/71/Breaking_the_Consumer_Habit_Living_the_Buy_Nothing_Life.html
Lesið það, fín grein.

Gangi ykkur vel í sjónvarpsleysinu.
Kv. Helen

sunnudagur, apríl 15, 2007

Smátök

Í umræðum um átökin sem standa eiga í viku hver kom þetta snilldarorð upp: smátök.
Næsta smátak er s.s. að borða ekki kjöt, byrjar í dag og endar á laugardaginn næsta.
Þá er það spurningin: „Hvernig getur það verið umhverfisvænt að borða ekkert kjöt? “ Ég fletti þessu upp í ECOFOOT og þar segir að ástæðan sé að jurtafæði (ákvað að nota ekki orðið grænmeti því það á bara við grænmeti) krefst mun minna lands og orku. Jurtafæði sem kemur af ræktarlöndum notar einungis 0,78 hektara af landi á hvert tonn af mat. Dýraafurðir nota 2,8 hektara af landi á hvert tonn af mat.
Svo má alltaf deila um hvort þetta á alveg við aðstæður okkar hér á Íslandi. Hvað með villibráð? Er hún umhverfisvænni eða ekki? Læt ykkur um að svara því.
kv. Helen

Grænmetisvikan

Þá erum við búin að draga nýtt vikuátak og þessi miði kom upp úr krukkunni: "Grænmetisætur – það má komast að því á www.ecofoot.org að grænmetisætur nota mun minna landsvæði á þessari jörð en aðrir."
Við gerumst sem sagt grænmetisætur dagana 14. - 22. apríl, lítið mál - eða hvað?
Samtök grænmetisætna á Íslandi, það er auðitað málið þessa vikuna! Kíkið á heimasíðuna: www.dordingull.com/veg/
Ég setti fleiri síður hér til hliðar, kíkið á þær ef þið hafið áhuga.
Svo þreytist ég seint á því að segja fólki frá grænmetissendingunum frá Akri (sjá græni hlekkurinn í vistvænum innkaupum).
Á næstu grösum bjóða meira að segja upp á námskeið í lok mánaðarins, skemmtileg tilviljun að okkar vika er á þessum tíma!

Rúna Björg

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Bónustaskan


Bónustaskan hefur fengið sitt hlutverk. Nokkrir kennarar úr Laugarnesskólanum fóru á fund Jóhannesar í Bónus og afhentu honum töskuna góðu að gjöf. Við þökkum Jóhannesi fyrir hlýjar móttökur og vonum að taskan komi í góðar þarfir.

Gunna, Helen, Rúna, Viggi.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Ég er merkjafrík

Ég vissi það ekki fyrr en um daginn, og það kom mér dálítið á óvart, að ég er merkjafrík.
Ég kaupi talsvert af grænmeti og finnst það bæði gott og hollt. Ég þarf hins vegar að leggja mig verulega fram til að vera viss um að grænmetið sem ég er að kaupa sé íslenskt. Um daginn var hins vegar í blöðunum verið að kynna merki sem tryggir að svo sé. Merkið er semsagt íslenski fáninn og síðan stendur líka ÍSLENSKT á viðkomandi vöru. Mér létti. Ég var nefnilega búin að kaupa tiltekið grænmeti í langan tíma í þeirri trú að varan væri íslensk (það var mynd af íslenskri konu sem allir þekkja, textinn á pokanum var allur á íslensku og svo stóð meira að segja að varan væri skoluð úr hreinu vatni, gott ef ekki íslensku) . Mér sárnaði þegar ég seint og um síðir áttaði mig á að þetta annars ágæta grænmeti var alls ekki sú vara sem ég taldi mig vera að kaupa.
Þess vegna fagnaði ég ákaft þegar ég sá "merki" á grænmetinu mínu, íslenskur fánaborði og stendur jafnvel frá hvaða gróðrastöð varan kemur. Ég er sannfærð um gæði innlendra matvæla og tel að við eigum að framleiða okkar eigin mat. Það hlýtur líka að vera umhverfisvænna en að flytja matinn um hálfan hnöttinn, fyrir utan það hvað hann hlýtur að vera ferskari úr heimahögum. Eða hvað finnst ykkur??

Ég er þessvegna stolt af því að tikynna að ég er MERKJAFRÍK þegar kemur að matvöru.
Látum ekki plata okkur.
KV
Gunna