fimmtudagur, mars 29, 2007

Mikil notkun plastpoka i heiminum.

Ég bendi ykkur á þessa heimasíðu sem selur vistvæna innkaupapoka. Í dálknum hægra megin má sjá plastpokanotkun jarðarbúa á þessu ári. Talan hækkar á meðan maður horfir á. Tugir þúsunda á sekúndu.
Hrikalegt að horfa á þennan teljara !

http://www.fairpack.org/index.html

laugardagur, mars 24, 2007

Vikan framundan

Um daginn drógum við um næsta átak sem á að standa í viku, 25. - 30. mars að báðum dögunum meðtöldum.
Yfirskrift þess er: að komast í gömlu fötin. Fólk er þá hvatt til að takast á við óheilbrigt líferni sitt (t.d. sælgætisát, sófaklessu) og reyna af öllum mætti að huga að heilbrigði.
Markmiðið er í sjálfu sér ekki að komast í gömlu fötin enda er vika engan veginn nóg í það :-)) og markmiðið ekki að léttast, heldur að hver og einn taki sig á í því sem honum finnst hann þurfa að bæta.
Á hverjum degi verður boðið upp á 10 mín. leikfimi (utandyra eða innandyra) í hádeginu fyrir starfsmenn Laugarnesskóla.

kv. Helen Sím.

laugardagur, mars 17, 2007

Næstu skref?

Það er ýmislegt sem okkur hefur dottið í hug að gera í framhaldi af kaupum ekkert átakinu. Reyndar held ég að fæst okkar fari aftur í saman gamla farið og dembi sér á bólakaf í neyslu. Sumir ætla að kaupa sér nýja skó, aðra þyrstir mjög í nýjar bækur, enn aðrir ætla að láta reyna á kauplausa daga, vikur eða mánuði áfram.

En við erum ekkert á því að gefast upp, er það nokkuð? Við erum líka mikið fyrir tilbreytingu í lífinu.
Þessi hugmynd kom upp á Hljómalind á fimmtudaginn:
Átaksvikur í anda verkefnisins.
Vikulega yrði dregið um átak. Ég legg til að við drögum um nýtt átak t.d. fyrri hluta vikunnar, söfnum saman upplýsingum til að setja út á síðuna okkar og átaksvikan hæfist annað hvort í vikulokin eða á sunnudegi.

Hér eru nokkrar hugmyndir sem við gætum tekið fyrir, ég man auðvitað ekki eftir öllu, en þið verðið að bæta því við sem gleymist.

Kláraðu matinn þinn úr skápunum - það flæðir eflaust út úr frystinum og búrskápnum hjá mörgum og ekki úr vegi að kaupa mun minna af matvælum í eina viku en við erum vön.

Að komast í gömlu fötin - er það ekki í anda átaksins að borða hollari mat og hreyfa sig meira með það að markmiði að komast aftur í eitthvað af því sem við komumst ekki lengur í?

Getum við gert eitthvað í sambandi við auglýsingar? Er hægt að kaupa eingöngu vörur sem ekki eru auglýstar? Gæti orðið erfitt, mjólkin er meira að segja auglýst, en er lífræna mjólkin líka auglýst?

Eiturefnalaus vika – veljum matvæli án rotvarnarefna, hreinlætisvörur o.fl. sem er með umhverfismerkjum.

Endurvinnsla – flokkum allt sorp í viku, nýtum alla flokkana í sorpu og ekkert svindl. Kannski komast líka flest okkar einhversstaðar í jarðgerðartunnu. www.sorpa.is

Fair trade – á www.rapunzel.com/nature/nature_practices.html má lesa aðeins um það og svo sáu sumir danska þáttinn um vestræna framleiðslu á Indlandi í vikunni.

Forgangsraðaðu í lífinu – setja það sem okkur þykir vænst um og mikilvægast í 1. sæti og sinna því vel.

Gefum eitthvað sem við eigum – eiga ekki allir hluti sem þeir eru löngu hættir að nota, en aðrir gætu hugsað sér að eiga?

Gerum við hluti – það hljóta allir að eiga eitthvað bilað, brotið eða rifið sem má gera við. Það eru svo margir laghentir í þessum hópi.

Grænmetisætur – það má komast að því á www.ecofoot.org að grænmetisætur nota mun minna landsvæði á þessari jörð en aðrir.

Grænt skrifstofuhald – um það má lesa á http://landvernd.is/vistvernd/

Höfum áhrif á aðra, höfum áhrif á stjórnmálamenn – kosningar framundan og ekki úr vegi að nota tækifærið til að koma skoðunum sínum á framfæri. Annars má líka smita hvern sem er af þessari dellu okkar.

Kaupum ekki brauð, bökum það – þessi hugmynd kviknaði út frá umræðu um hvernig mætti hafa áhrif á hátt vöruverð á matvælum.

Orkusparnaður –sleppa þurrkaranum, setja sparperur í öll ljós, muna að slökkva á rafmagnstækjum eftir notkun, taka hleðslutæki úr sambandi, ...

Samgöngur – sumir geta hjólað, aðrir gengið, notað strætó eða rútna, enn aðrir vanið sig á sparakstur á eigin bíl!

Sjónvarpslaus vika – á www.adbusters.org má lesa meira um það.

Verslum í heimabyggð og notum vörur framleiddar í heimabyggð – á www.ecofoot.org er talað um matvæli sem ekki hafa verið flutt lengra en 300 km.

Hvað finnst ykkur? Þeir sem hafa þorra og góu aðgangsorðið geta bætt við listann hér í þessari færslu. Aðrir geta bætt við hugmyndum í athugasemdum og ég bæti þeim inn á listann.

f.h. Þorra og Góu
Rúna Björg

Homo Consumus

Ég stenst ekki mátið að læða hér inn einu ljóði. Það fyrsta í ljóðabókinni Bónusljóð/33 % meira frá 2003 , e. Andra Snæ Magnason, er að finna hið frábæra ljóð, HOMO CONSUMUS ;

Frumeðli mannsins
var ekki veiðieðlið

i öndverðu fyrir daga oddsins
og vopnsins

reikuðu menn um slétturnar
og söfnuðu !
Þeir söfnuðu rótum
og þeir söfnuðu ávöxtum
og eggjum og nýdauðum dýrum

ég
nútímamaðurinn
sjónvarpssjúklingurinn
finn hvernig frummaðurinn brýst fram
þegar ég bruna með kerruna
og safna og safna og safna...

(Birt með góðfúslegu leyfi höfundar)

föstudagur, mars 16, 2007

Bónustaskan

Ég má til með að setja inn ljósmynd af hinni snotru Bónustösku sem að hekluð var úr rúmlega 20 Bónuspokum af henni Guðrúnu.

Hittingurinn í gær var frábær og ég er spennt að sjá hvað "ritararnir" hafa um næstu skref að segja.


þriðjudagur, mars 13, 2007

Kaffi Hljómalind á fimmtudagskvöldið

Á fimmtudaginn ætlum við að kíkja á Kaffi Hljómalind, Laugavegi 21, kl. 20:00.
Það væri gaman að sjá ykkur sem ekki vinnið í Laugarnesskóla þar.
Þið þekkið okkur á hekluðu töskunum ;)

Þorri og Góa

sunnudagur, mars 11, 2007

Fótspor mitt á jörðinni

Ótrúlegar tölur!
Ef allir í heiminum myndu búa og lifa á sama hátt og ég, þyrftum við á 2.8 jörðum að halda ef við ætlum að lifa.
Á síðunni http://ecofoot.org/ má svara spurningum um lifnaðarhætti til að fá að vita hvað marga hektara af ræktuðu landi þarf til að framfleyta einni manneskju.
Ég nota sem sagt 5 hektara af landi. Venjulegur Ameríkani notar 9.57 hektara sem eru langstærstu "notendurnir" (af jörðinni) og Indverjar nota minnst eða 0,5 hektara. Ef Kínverjar notuðu jafn stóran hlut og Ameríkanar þá þyrftum við 25 jarðir. Hugsið ykkur bara.
Prófið síðuna og svarið í einlægni.

Ég er í sjokki!
Við verðum að breytast það er nokkuð ljóst.
Góða skemmtun!
Helen

p.s. mæli með http://adbusters.org/metas/psycho/mediacarta/rejected/ ótrúlegar góðar auglýsingar um áhrif markaðarins á okkur neytendur. Þið bara verðið að skoða þetta.

laugardagur, mars 10, 2007

19. mars ... og hvað svo?

Já, nú eru ekki nema níu dagar eftir af góu! ... og hvað þá?
Verður einmánuður eyðslumánuðurinn mikli? Eruð þið búin að taka ykkur frí þann 19. til að eyða öllum deginum í búðum?

Eða hvað? Höfðum við ekkert upp úr þessu nema eymd og volæði í tvo mánuði?

Ég var að svara nokkrum spurningum á European compact fyrir grein sem á að birta á adbusters.org
Þar var m.a. spurt:
„How much longer do you think you'll last with the compact?“
Og þessu svaraði ég:
„As a group we decided to take one step at a time and chose to start with two months, two of the old Icelandic winter months, thorri and góa.
The support and company I have in our group is important to me, so we’ll see after the 19th of March how it goes.
It feels like cheating, though, if I was to stop after only these two months. Cheating on myself rather than anyone else! It’s not until recently I felt the need to buy something I did not because of the compact. So I think if was to go on for another two months it would start to make a real change in my live.
Whatever I decide, I definatly am not going back to consumerism like before the compact. These two months have had an impact and I certainly will think before I shop. I might adjust the compact to my own needs if none of my colleagues is prepared to continue the compact with me, but I don’t think I will stop after the two months.
I have been asked the question of cheating before – have none of you cheated so far? I don’t think this is a question of cheating or not. As long as we change the way we think about consumerism we are on the right track.“

En þið, hverju hefðuð þið svarað?

Það eru fleiri áhugaverðar spurningar í tengslum við þessa grein á Compact Europe. Hvet ykkur til að kíkja á Compact hópinn í Evrópu. Þið þurfið að skrá ykkur í hópinn til að geta lesið póst og þá getið þið líka svarað þessum spurningum.

Rúna Björg

sunnudagur, mars 04, 2007

Á ég að gefa þér garn?

Ég sat á kennarastofunni í síðust viku og heklaði - úr plastpokum. Sessunautur minn hallaði sér að mér og hvíslaði: Á ég að gefa þér garn Guðrún?
Já það þykir sumum undarlegt uppátæki að hamast við að vinna nytjahlut úr drasli eins og plastpokum. Ég á hins vegar allnokkuð af garni og ýmsum efnum sem bíða bara eftir að úr þeim verði unnið. Þá er líka eitthvað til af hálfunnum munum sem ekki tókst að ljúka við áður en ný hugmynd fæddist. Ég er örugglega ekki ein um að fá hugmyndir hraðar en hendurnar geta unnið úr.
Ég hafði hins vegar á tilfinningunni að sú sem bauðst til að gefa mér garnið hafið fundið til mér vegna verslunarbannsins! Málið er hins vegar að mér finnst mér engin vorkunn. Börnin mín eru hins vegar farin að spyrja hvenær þetta verði búið. Enda vita þau að ekkert þýðir að biðja um neitt þessa dagana. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að maður verði að endurnýja það sem gengur úr sér. Annars hafa krakkarnir líka gott af því að hugsa um þetta.
Það hvað verið er að hekla kemur hins vegar í ljós á allra næstu dögum.
Kveðja
Gunna