þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Götusölumaðurinn Erlendur

Mér fannst ég nú ansi heppin að vera í ÞogG í kvöld. Það bankaði upp á hjá okkur maður sem að rétti mér póstkort. Á því stóð að hann vildi bjóða mér upp á handverk. Ég sagði honum bara að ég keypti ekki neitt. Hann vildi samt koma inn og sýna mér. Ég sagði honum aftur að ég myndi ekki kaupa neitt en hann vildi samt sýna mér vörur sýnar. Hann fór fúll en ég kvaddi hann glöð í bragði !!!!

mánudagur, febrúar 26, 2007

Kaupum ekkert - top tíu listi

Neðst á síðunni okkar setti ég til gamans inn lista yfir "kaupum ekkert tónlist" sem ég fékk að láni á Never Enough? síðunni. Ef þið eigið eitthvað af þessum lögum er ég til í að fá þau lánuð.

Rúna Björg

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Hversu mikið er nóg?

Ég var að skoða heimasíðu 'Never Enough?' campaign í Manchester á www.enough.org.uk

Erum við að uppfylla raunverulegri þörf með því að kaupa alla skapaða hluti og eiga allt til alls, nýja útgáfu af hinu og þessu. Eru þetta okkar eigin þarfir eða þarfir annarra? Hver ræður ferðinni í þessu neyslubrjálæði, þegar aðeins lítill hluti mannkyns gengur á meirihluta auðlinda jarðar?
Ég er ekki til í að neita mér um þau þægindi sem ég bý við. Ég vil eiga samskipti við fólkið mitt út í heimi, nota tölvuna, farsímann ... og ferðast, hlusta á tónlist alls staðar að úr heiminum, fara í bíó, keyra mig í matarboðið í Hafnarfirði ...
Til hvers erum við þá með þetta "vesen" í tvo mánuði? Erum við bara að þessu til að pína okkur? - Nei, er það? Erum við að sýnast? – Kannski?
Ég veit alla vega núna - og vissi svo sem áður, en hugsaði ekki um - að ég get verið ansi ánægð með lífið og tilveruna án þess að rjúka til og kaupa nýju útgáfuna af öllum sköpuðum hlutum. Það er allavega þess virði að íhuga hversu mikil efnisleg gæði við þurfum til að láta okkur líða vel.
Það er svo auðvelt að telja okkur trú um að meiri hamingja sé rétt handan við hornið og þangað komumst við með aðeins meiri vinnu, aðeins hærra kaupi (hættuleg umræða í kennarastétt) og aðeins meiri hraða. Það eru allavega nógu margir sem stunda þessa iðju - bæði að auglýsa hamningjuna og að elta hana.
Ég skal ekki segja hvað við gerum eftir þessa tvo mánuði. Kannski hlaupum við niður á Laugaveg og drekkjum okkur í drasli – eða er kominn tími til að meta hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm?

Er meira alltaf betra?

Rúna Björg

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Presque rien - næstum því ekki neitt

Ég er eins og þið hin, vona ég, dálítið upptekin af þessum nýja hugsunarhætti okkar og finn víða tengingar við "meinlætalífið" - sem mér finnst svo sem ekkert meinlætalíf, heldur kjörið tækifæri til að verja tímanum í það sem mig langar til að gera.

Nema hvað frétt í laugardagsmogganum um sýningu í Nýló, Laugavegi 26, vakti athygli mína. Presque rien - næstum því ekki neitt heitir hún og minnir á að við getum gert svo merkilega hluti úr næstum engu eða með því að gera næstum ekki neitt eða eins og segir í greininni: „Næstum því ekki neitt, það er ekki ekki neitt.“
Hér er umfjöllun um sýninguna af www.nylo.is: „Ætlunarverk sýningarinnar er að afhjúpa svo ekki verði um villst hversu lifandi og öflug hin stöðuga sköpun, sem Robert Filliou var svo kær, er enn hjá listamönnum okkar tíma. Miðpunktur sýningarinnar er listaverkið Poïpoïdrome, sem Robert Filliou og Joachim Pfeufer skildu eftir í Nýló árið 1978. Kringum verkið munu þekktir franskir myndlistarmenn bregða á leik og koma þannig hugmyndinni um "République Géniale" ?("Snilldarlega Lýðveldið") enn lengra, í þágu mannkynsins. Orðatiltæki Fillious, og lykilorð eins og Virkur, Breytilegur, Hreyfing, Orka, Árangur, Nægjusemi, Flæði, Hverfulleiki og Innskot munu leggja undir sig sýningarsvæðið. Sýningin snýst ekki um að fylla rýmið af verkum, heldur að horfast í augu við listsköpunina, í sinni nöktustu mynd, og brosa til hennar, eða ekki. "að gera næstum því ekki neitt, það er það sem listamennirnir gera", hefði Filliou getað sagt.“

Rúna Björg

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Þorrinn búinn og góan eftir

Jæja, þá er þorrinn búinn og bara góan eftir.
Það fer kannski að reyna meira á núna. Eða hvað haldið þið?
kv. Helen Sím.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Litlar buddur úr pokum

Mig langaði að sýna ykkur afrakstur örnámskeiðsins sem Gunna hélt í gær í að hekla tösku úr plastpokum. Ég er bara svo skynsöm að byrja á litlum hlutum.
Bláleita buddan er úr einum plastpoka og verður lítil snyrtitaska eða pennaveski eða eitthvað slíkt. Eins og þið sjáið er ég ekki búin en mig langaði að sýna ykkur myndirnar núna. Græna sólgleraugnahulstrið er úr einum Blómavalspoka og tók mig tvö kvöld að hekla.
Kveðja Helen

föstudagur, febrúar 16, 2007

Leikföng úr "drasli"

Það gengur enn vel, þegar maður fer ekkert í búðir þá er þetta ekkert mál. Ég ætlaði að klippa tré í gær en fann ekki klippur. Var viss um að þær væru á sumarheimilinu. Nú ég hefði sennilega hlaupið út í Byko til að kaupa annað par ef ekki væri fyrir ÞoG !

En það sem að mig langar svo mikið til að deila með ykkur er að ég datt niður á frábæra gjafalausn fyrir 4 ára systurson minn. Ég hafði hugsað mér að sauma handa honum orm úr gömlum sokkum og nota kannski gömul föt í innvolsið. Ég á mjög stóran poka heima af ósamstæðum sokkum og hafði séð á flickr tuskudýr úr gömlum fötum. Nema hvað að í morgun í kennslu þá bara datt ég niður á þetta skopparakringludæmi. Ég fékk hjá smiði fyrir nokkuð löngu síðan, litlar skífur sem eru boraðar úr spónaplötum. Þið sjáið þetta ef að þið smellið á myndina. Hún skýrir allt. Nú ég hendi ekki litlum trélitastubbum heldur geymi þá til að nota í listsköpun. Þeim stakk ég í gatið og voila, þarna var komin hin fínasta skopparakringla. Við lituðum þær svo með neocolor litum svo að þær yrðu meira spennandi.
Krakkarnir sem eru í 4. bekk voru yfir sig hrifin og lágu á gólfinu í skopparakeppni.´
Nú þarf ég að betla fleiri skífur hjá hinum og þessum smiðum til að fleiri nemendur geti fengið að gera kringlur. Þessu er bara hent.
Fleiri myndir af verkefninu má sjá með því að smella hér.


fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Það vottast hér með að ástæðan fyrir því að ég hef ekki skrifað lengi á þessa síðu er ekki sú að ég hafi legið í felum í eyðslusukki og kaupfíkn að undanförnu...ég hef bara ekki komist inn á bloggið fyrr en nú.
Undanfarinn mánuð hef ég aftur á móti af og til verið gripin óstjórnlegu kvíðakasti. Ástæðan er að mér hefur reynst þetta kaupbann óeðlilega auðvelt miðað við það sem vænta mátti...svona svo tekið sé mið af mér og minni fyrri hegðun í búðum.
Þessvegna hefur af og til skotið upp í kollinum á mér þeirri hugsun, hvort hugsast gæti að ég væri að versla í einhverskonar óráði og meðvitundarleysis ástandi, án þess að hafa hugmynd um það sjálf.
En það er ekki að sjá að það hafi bæst við draslið í annars yfirfullri íbúðinni og því er aðeins sá möguleiki eftir að þetta verslunarbindindi sé bara mun auðveldara en mig hefði áður órað fyrir.
Í dag leysti ég að mínu mati gjafamál á snildarhátt sem ég vil gjarnan deila með ykkur...
Vinkona mín var að flytja inn í nýtt húsnæði og við slík tækifæri ber manni að koma færandi hendi. Ég fór í Góða hirðinn, keypti glæsilega basstkörfu (fyrir heilar 200 kr.), hafði vöruskipti við móður mína á heimagerðu sultunni hennar og heimagerða kryddleginum mínum, settu berjasultuna og kryddlög í körfuna, keypti þrjá osta í Bónus sem líka fóru ofan í körfuna ásamt glóðvolgu heimabökuðu brauði og ilmkerti sem ég gróf innan úr skáp hjá mér. Síðan slaufa utan um alltsaman...og þetta gerði þessa líka stormandi lukku... ;o)
Mikið skelfing líður bæði mér og peningaveskinu mínu vel eftir daginn... ;o)
Kv. Dammý.

Heklum töskur úr plastpokum

Í morgunkaffinu í fyrramálið bjóðum við upp á örnámskeið í töskugerð úr plastpokum í anda Ingu á Bjarkargötunni sem Systa sagði okkur frá hér á síðunni 6. febrúar.
Staður og stund: Á kaffistofunni okkar kl. 10:35
Efni og áhöld: Komið með grófa helkunál, nr. 5 eða 6, einn plastpoka og skæri. Auka heklunálar og skæri verða á staðnum - enda getum við ekki farið út í búð að kaupa nýjar nálar og skæri!!

Það er svo sem ekki víst að við fáum afgreiðslu í verslunum á næstu dögum. Ég fór í eina af mínum uppáhalds búðum, Pipar og salt, í vikunni. Þar fékk ég góðar móttökur eins og venjulega, nema hvað tekið var á móti mér með undrun: "Þú hér? Ég hélt þú mættir ekki lengur fara í búðir!"

Rúna Björg

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Vakin og sofin yfir átakinu

Já, ég get ekki sagt annað en að þetta átak okkar er farið að hafa veruleg áhrif á mig.
Mig dreymdi nefnilega í nótt að ég var stödd í leikfangaverslun með allri fjölskyldunni og mér leið hálf undarlega. Ég verslaði þó ekkert í búðinni en þegar ég kom út sá ég að fylgst var með mér. Enginn annar en Þorgeir Ástvaldsson og einhver annar útvarpsmaður (voru með útsendingu) voru úti í glugga á móti versluninni að fylgjast með mér.
Ég veit svei mér ekki hvernig ég á að túlka drauminn, kannski er ég hrædd um að falla eða vera gómuð við að versla. Hvað haldið þið?
kv. Helen

Takk fyrir að leyfa mér að vera með !

Þá er maður nú búinn að taka skrefið til fulls og hér kemur fyrsta innleggið frá mér.
Ég verð að játa það að um leið og ég uppgötvaði þorrann og góuna að þá dreif ég mig í að panta jarðgerðarkassa til nota innandyra. Þeir koma frá Svíra og mér líst mjög vel á þá. Ég bjó áður í sveit og þá var lítið mál að losa sig við matarafganga en nú hef ég sett þá í ruslið með hinu síðan í haust og ég er alveg búin að fá nóg af því. Þegar maður einu sinni er búinn að venja sig á það að endurvinna matinn þá er hitt alveg ómögulegt.

Varðandi innkaupabindindið þá eru tvö afmæli framundan. Sá sem verður 4 ára er nú ánægður með hvað sem er þannig að ekki verður mikill vandi að leysa það. Hins vegar er eitt fertugsafmæli líka í mars. Það sem að ég ætla að leggja til við afmælisbarnið er að ég megi gefa henni heimatilbúna gjöf og svo þegar ég verð fertug geti hún gefið mér eitthvað heimatilbúið líka. Við gætum líka farið saman í leikhús með þeirri þriðju sem fertug verður á árinu.

Takk fyrir takk
Margrét

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Gamlar gardínur fá nýtt hlutverk

Steinunni systir og Ara vantaði gardínur fyrir kjallaragluggana í nýja húsinu sínu.
Mamma tíndi fram hvern pokann á fætur öðrum úr geymslunni hjá sér og viti menn, okkur tókst að sauma nýjar gardínur fyrir kjallaragluggana þrjá úr 7 gömlum gardínum sem hafa beðið eftir nýju hlutverki í tæp 20 ár.
Segið svo að átakið okkar hafi ekki áhrif - eða erum við systur svona vel uppaldar?
Ég á kannski ekki langt að sækja þá áráttu að geyma ólíklegustu hluti, sannfærð um að ég geti notað þá einn góðan veðurdag.
Það er að minnsta kosti óþarfi að henda því sem er heilt.

Rúna Björg

föstudagur, febrúar 09, 2007

Fréttir af rifna kjólnum

Viðgerð á kjólnum er nú lokið. Eftir allnokkrar vangaveltur og ótrúlega skemmtilegar tillögur frá ykkur félögunum og fleirum, komst ég loks að niðurstöðu um hvernig ég ætti að laga kjólinn minn. Viðgeðarefnið kostaði rúmar 100 krónur (130-140 kr minnir mig) og nokkrar stundir við bróderí. Hann skartar nú dásamlegum pallíettuborða meðfram klaufinni, upp og niður. Það er hreinlega bara eins og að eiga nýjan kjól.
Og hvað hef ég nú lært af þessu? Hvorki meira né minna en Pallíettubróderí en það hafði ég semsagt ekki lært áður.
Nú get ég því sungið eins og Helena Eyjólfsdóttir forðum :

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott,
það má finna útúr öllu ánægjuvott . . .
Kv. Gunna

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Björt framtið?

Bekkurinn minn (10-11 ára krakkar) hélt óundirbúinn málfund í vikunni. Spurt var: “Eigum við að flokka sorp?” Í Laugarnesskóla hafa krakkarnir flokkað sorp, þ.e. lífrænan úrgang, fernur og pappír, í nokkur ár, en að öðru leyti var þetta algjörlega óundirbúið verkefni.
Miðað við skoðanir krakkanna og þekkingu á þessum málaflokki ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðinni. Þeir komu fjölbreytt rök fyrir því að flokkar sorp og draga þannig úr mengun, fátækt í heiminum, auka jöfnuð í heiminum, auka vellíðan o.s.frv.
Við ættum að taka okkur æskuna oftar til fyrirmyndar. Í það minnsta ættum við að leyfa krökkunum að segja sína skoðun og gefa þeim tækifæri til að lifa eftir henni!

Rúna Björg

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Góði hirðirinn

Í gær kom ég við í Góða hirðinum og þar var margt um manninn. Ég hef nú komið þangað áður en í gær fór ég með allt öðru hugafari. Áður hef ég rétt svo litið þarna í gegn en ekki skoðað almennilega.
Það er hægt að fá ótrúlegustu hluti þarna. Þrjú sjónvörp voru til sölu á milli þrjú og fimm þúsund krónur, ísskápar, eldavélar, sófar, borð, stólar í massavís, hnífapör, kökuform og fleira og fleira. Fann samt enga ramma eins og mig vantar en maður verður að vera reglulega þarna því mér sýnist hlutirnir renna út eins og heitar lummur. Það er samt örugglega mjög lítill hluti sem endar í Góða hirðinum, það er svo margt sem fólk hendir í heimilissorpið.
Mig vantaði nú bara ramma en fékk smá fiðring um að kaupa bara eitthvað en lét það ekki eftir mér.
Kv. Helen

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Neyðin kennir naktri konu að spinna!

Ég á óvenju mikið af plastpokum núna sem er ágætt þar sem ég safna þeim saman sem ruslapokum og passa að henda þeim ekki fyrr en þeir hafa uppfyllt sitt hlutverk sem slíkir.
En nú ber svo við að þeir eru óvenju margir og mér datt í hug leið til að nýta þá á hagkvæman hátt.
þegar ég var lítil stelpa (um 30 ár síðan) þekkti ég gamla konu, hana Ingu á Bjarkargötunni sem við mamma heimsóttum oft á sunnudögum.
Inga gamla var hálfblind en samt sem áður snillingur í höndunum og lét blinduna ekki aftra sér í að skapa hina fegurstu hluti úr allsskyns afgöngum sem til féllu.
Ég man sérstaklega vel eftir sundtösku sem hún hafði gefið mér og mér fannst svo merkileg fyrir þær sakir að hún var gerð úr plastpokum. Taskan var vatnsheld, falleg og litrík að sama skapi.
Inga hafði klippt plastpoka niður í ræmur og heklaði síðan úr ræmunum þessa líka fínu tösku sem ég átti svo í mörg ár.
Annað sem er mér minnisstætt um þessa yndislegu konu var það að hún var langt því frá að vera rík og hafði úr tiltölulega litlu að moða og því var nýtnin á heimilinu alveg á skjön við það sem flestir þekkja í dag, þar sem allir eru að drukkna í einnota drasli sem við erum í mesta basli með að losa okkur við.
Neyðin kenndi henni að spinna meðan ofgnóttin neyðir okkur til að finna leiðir til að losa okkur við "draslið" .... já eigum við ekki bara segja....á skapandi hátt.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Afmælisgjöfin

Í dag fór ég með 7 (að verða 8) ára frænku minni í leikhús. Við Bergur sóttum hana og vorum með kort (sem við bjuggum auðvitað til) sem hún þurfti að lita á til að fá að vita hvað við værum að fara að gera.
Við gáfum henni sem sagt ferð með okkur í leikhús. Sú stutta var alsæl og ánægð með leikritið og ferðina. Á heimleiðinni sagði hún að þetta væri besta afmælisgjöfin sín. Svo þið sjáið, hún var ánægð. Ég var næstum því búin að kaupa leikskrá eða plakat handa blessuðu barninu líka (leikararnir voru nefnilega að árita eftir leikritið). En ég náði að stoppa mig af áður. Þannig að ef einhver á leikskrána af sýningu Ronju ræningjadóttur og veit ekki hvað hann á að gera við hana þá get ég tekið við henni og gefið frænkunni (þetta var nefnilega fyrsta leikhúsferðin hennar).

Mér heyrist á mörgum að kaupa enga hluti sé svo sem ekki mikið mál en það sé verra með gjafirnar. Þið hafið eflaust einhverjar sögur. Leyfið okkur að heyra
kv. Helen Sím.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Plastpokar eða innkaupatöskur


Hversu oft segjum við ekki "Heyrðu, viltu bæta einum plastpoka við...já, eða kannski tveimur" þegar við stöndum við afgreiðslukassann og erum að klára innkaupin okkar?
Ég las í bókinni "Change the World for a Fiver" að hver manneskja í Bretlandi notaði að meðaltali 134 plastpoka á ári eða 8 billjónir samanlagt!!! Og að það getur tekið um 500 ár fyrir plastið að eyðast eftir að það hefur verið urðað.

Hvað skyldum við Íslendingar nota marga á ári? Ef til vill eitthvað svipað og Englendingarnir, eða samanlagt eitthvað um 40.200.000 plastpoka?

Er ekki málið að fá sér innkaupatösku, notaða að sjálfsögðu...já, eða bara hanna eina og hrista hana síðan fram úr erminni. Þetta er meira að segja "inn" í Frakklandi!

Verum vistvæn í verki.

Kveðja frá Hlemmi +
Vignir Ljósálfur

P.S. Ég keypti mér nefnilega innkaupatösku á s.l. ári í Søstrene Grene...en gleymi alltaf að nota hana! Nú verður breyting þar á þar sem það er í anda hópsins okkar.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Sjalfsþurftarbúskapur?

Jæja, ætli líði ekki að því að ég fari að stunda sjálfsþurftarbúskap, eins og Steinunn systir stakk upp á þegar ég sagði henni frá þessu framtaki okkar.

Nú erum við líka hvött til að sniðganga vöru frá aðilum sem hafa hækkað vöruverð, enda styttist í lækkun á vaski á matvöru o.fl.
Hópur "venjulegs fjölskyldufólks" heldur úti heimasíðu um málið á slóðinni nogkomid.blog.is
Í kynningu þeirra segir m.a.: "Við erum venjulegt fjölskyldufólk sem fengið hefur nóg og höfum hafið herferð til að mótmæla hækkunum birgja og verslana á matvörum.
Við hvetjum fólk til að sniðganga vörur og verslanir sem ætla sér að grípa tækifærið og græða meira á okkar kostnað og éta upp lækkanir ríkistjórnarinnar."

Lista yfir aðila sem hafa hækkað vöruverð er að finna á heimasíðu neytendasamtakanna, línkurinn þeirra er í vistvæna safninu okkar. Þessi listi er uppfærður reglulega.

Annars ætla ég að bregða mér í bæinn á morgun. Ætla að skoða nokkrar verslanir sem selja notaða vöru. Mér finnst auðvitað enn jafn gaman að kíkja í bæinn þó ég kaupi enga nýja hluti - fæ mér kannski nýlagað te!

Rúna Björg

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Útsölurnar
Þessa dagana hamast verslunareigendur við að lækka verðið á útsölunum til að reyna að kreista frá okkur aurana. . . Í gær var ég nærri búin að missa mig. Ég fékk semsagt SMS frá versluninni ZIK ZAK þar sem mér var sagt að verðið hefði hreinlega hrapað niður úr öllu valdi, flíkurnar komnar niður í 500 kall ! Mín fyrstu viðbrögð voru þau að ég ætti nú bara að kíkja þar við á leið heim úr vinnunni - en svo áttaði ég mig og minnti mig á að mig vantaði í rauninni ekki svo ofboðslega mikið að fá mér nýja flík. Svo kom hún "Pollíanna" á öxlina á mér og hvíslaði því líka að mér að það væru hvort eð er bara vetraföt á þessum útsölum og vorið kemur bráðum . . .
Í dag líður mér miklu betur og dettur ekki í hug að fara á útsölu.
Gunna