miðvikudagur, janúar 31, 2007

Recycle this

Ég var að bæta nýrri heimasíðu við safnið okkar. Þessi heitir Recycle this og er bresk. Hægt er að senda fyrirspurn í tölvupósti um hvernig eigi að endurnýta eða endurvinna ólíklegustu hluti. Lesendur síðunnar geta auðveldlega komið með ábendingar og hugmyndir. Það er t.d. stungið upp á því að nota gamlar myndbandsspólur til að fæla fugla frá matjurtagarðinum. Snilld!

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Tólfti dagurinn

Já nú er tólfti dagurinn í átakinu að renna upp. Nokkrir hafa komið að máli við mig og talað um að þó svo þeir séu ekki í átakinu eru þeir orðnir mjög meðvitaðir um það sem þeir kaupa og hugsa sig tvisvar um.
Ein sagði mér að baðvigtin á heimilinu hefði brotnað og það hvarflaði að henni að fara strax og kaupa nýja en... hún ákvað að hún þyrfti ekki á baðvigt að halda fer bara á vogina á líkamsræktarstöðinni. Við höfum augljóslega áhrif á fólk.
Nú er frétt um okkur komin á vef vistverndar í verki http://landvernd.is/vistvernd/ og Bryndís starfsmaður vistverndar ætlar að bætast í okkar hóp og kaupa ekkert þorrann og góuna. Við bjóðum Bryndísi velkomna í hópinn.
Kv. Helen

sunnudagur, janúar 28, 2007

Gjafir

Í gærmorgun fór ég að skoða nýfæddan frænda. Ég var ekki búin að kaupa neitt áður en átakið hófst og var því í pínu vandræðum, ekki búin að prjóna neitt úr öllu þessu garni sem ég á. Ég náði í kassa fullan af barnaleikföngum sem strákarnir mínir áttu og Kjartan (3 ára) valdi tvo hluti til að gefa þeim nýfædda. Pakkaði þeim inn og var hoppandi glaður í orðsins fyllstu..... Hann var svo ánægður að gefa frænda sínum gamla dótið sitt. Nú höfum við oft farið saman að kaupa alls kyns gjafir en Kjartan hefur aldrei verið eins ánægður og nú að gefa gjöf.
Kv. Helen

laugardagur, janúar 27, 2007

Ég rölti i bæinn og.....

... stóðst allar freistingar. En það er ekki heiglum hent að ganga niður Laugaveginn og versla ekki neitt. Það eru ÚTSÖLUR ÚTSÖLUR á hverju götuhorni. Allt að 30%, 50% og 80% afsláttur! Það var sérstaklega erfitt að skoða allar bækurnar sem eru á útsölu (ég fór í allar bókabúðirnar í miðbænum).
Ég get rétt ímyndað mér að það hlýtur að vera sérstaklega erfitt fyrir þá sem eru með kaupæði. Og talandi um kaupæði, þá er mjög góð grein um það í helgarblaði DV þar sem Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur svara spurningum um þessa fíkn. Ég er örugglega með snert af kaupæði!
Reynið endilega að verða ykkur úti um eintak. Eins og ég segi, þá er þetta athyglisverð lesning. Ef þið eruð ekki áskrifendur þá má nálgast blaðið á bókasöfnum, veitingastöðum eða bara hjá vinum og vandamönnum þar sem dagblöð hljóta að vera á lista yfir bannvörur...er það ekki annars?.

F.h. Þorra og Góu
Vignir Ljósálfur

föstudagur, janúar 26, 2007

Maurar, Marx og ristað brauð!

Við erum eins og sandkornin í Jöklu, eins og dropinn sem holar steininn, eins og ryð á járni.
Við erum maurar. Maurar sem gæða sér á brauðfótum kapítalismans. Óristað og án smjörs.
Ég legg til að allir í átakinu fái sér Marx og Engels í hönd sér til ánægju og yndisauka. Það er ekkert betra en að hafa Marx í annarri og súran hrútspung í hinni. Held ég eigi tvö eintök af bók eftir Marx heima, kem með eina á mánudaginn í kennarabókasafnið. OM!

Kennarar Laugarnesskóla, sameinist!

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Ónýtir sokkar??

Í hádeginu á morgun bjóðum við þeim fjölmörgu sem hafa áhyggjur af sokkum og sokkabuxunum sínum upp á örnámskeið í að stoppa í sokka.
Staður og stund: Á kennarastofunni okkar kl. 12:30.
Efni og áhöld: Komið með götótta sokka eða sokkabuxur. Nálar og garn verður á staðnum.

Rúna Björg

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Er þetta ekkert mál?

Jæja, gott fólk. Þetta virðist bara vera lítið mál í hópnum.
Klípurnar virðast fáar sem fólk er að lenda í.
Látið endilega í ykkur heyra!
Segið frá hvað er að gerast, hvernig þið leystuð vandamál sem komu upp þegar þið hefðuð annars keypt hluti.

Ég hef sjálf lent í að hugsa "ohhh af hverju útsala þarna núna og ég í kaupbanni" svo hef ég áttað mig að þó svo ég væri ekki í átakinu ætti ég ekki erindi á þessa útsölu því ég á nóg af því sem verið er að selja.

Ég fór í gegnum fataskápinn hjá mér og ætlaði að losa mig við eitthvað en svo hugsaði ég "best að reyna að nota eitthvað af þessu" og það gerði ég.

Látið í ykkur heyra hvort sem þið eruð með í átakinu eða ekki.

kv. Helen Sím.

mánudagur, janúar 22, 2007

Það var ekki mikið mál að halda sig frá verslunum um þessa helgi. I sveitinni eru blessunarlega engar búðir, bara fjallasýn og fegurðin eins og best verður á kosið. Svona þegar maður fer á fætur eftir þorrablótið. Eftir helgina blasir þó við eitt vandamál; sparikjóllinn minn er semsagt rifinn! Hvað er þá til ráða þegar ballvertíðin er rétt að hefjast og búið að strengja þess heit að ekki skuli farið í búðir? Má sauma sér nýjan? Má kaupa sér efni? Hvað með fólk sem hefur þörf fyrir að skapa?
Fyrir viku síðan hugsaði ég með mér að ég gæti alveg staðist 2 mánuði búðalausa þar sem ég hefði nóg af bókum og nóg af garni og handavinnu til að halda mér gangandi. Í mínu tilfelli er handavinna eins og sálfræðingur eða geðlæknir - til að koma kyrrð á sálina, að slaka á. Hvernig sný ég mér nú?
Guðrún

sunnudagur, janúar 21, 2007

Reykjavik Freecycle, skiptimarkaður a netinu

Á heimasíðu Freecycle www.freecycle.org er að finna hópa víða um heim sem hafa það að markmiði að forða nothæfum hlutum frá ruslahaugunum. Með því að skrá þig í yahoo hóp getur þú bóðið öðrum meðlimum hópsins hluti sem þú ert hætt(ur) að nota eða auglýst eftir því sem þig vantar - og allt verður að vera gefins.
Ég skráði mig í Reykjavíkurhópinn í dag. Þar virtist svo sem ekki mikið um að vera einmitt núna, en ég sá þó ýmislegt áhugavert. Auglýst er eftir notuðum frímerkjum, barnaföt eru gefins og mest spennandi: Lager brúðakjólaverslunnar er falur og til sýnis heima hjá eigandanum, ef ég skildi þetta rétt!

Eflaust eru ýmsar ástæður fyrir því að við ákváðum að prófa að kaupa ekkert næstu mánuði, þessi rök úr tölvupósti frá Freecycle eru ágæt: "By using what we already have on this earth, we reduce consumerism, manufacture fewer goods, and lessen the impact on the earth. Another benefit of using Freecycle is that it encourages us to get rid of junk that we no longer need and promote community involvement in the proces."

Þá er best að fara að taka til og sjá hverju ég er til í að sleppa. Eins og þið vitið, sem þekkið mig, er ég snillingur í að henda engu og safna alls konar drasli (eða dóti?). Ég er nefnilega viss um að ég á eftir að nota þetta allt saman, einn góðan veðurdag.

Rúna Björg

laugardagur, janúar 20, 2007

Eins og maðurinn sagði...

Eftir daginn í dag get ég auðveldlega gert orð gamals nýskupúka að mínum...
"Góður dagur í dag, ég hreyfði ekki buddu" ;o)
...en mikið er ég sammála þér Rúna, ég er með sparnað á heilanum og hugsa um fátt annað en að ég sé ekki að eyða peningum í óþarfa þessa dagana...ég hef aldrei á ævinni hugsað eins stíft um innkaup af öllu tagi eins og undanfarna tvo sólarhringa...
Kannski það að versla ekki verði jafn mikil þráhyggja og að versla í óhófi ?

Kv. :o

Kaupa hamingju?

Góðan daginn,

Þá er það kauplaus dagur nr. 2. Það er ótrúlegt hvað ég hugsa mikið um að kaupa ekkert. Ég hefði sennilega ekki hugsað um að kaupa nokkurn hlut ef við værum ekki í verslunarátaki. Ég keypti ávexti og ber í gær og er að sjóða sultu svo ég eignist nú eitthvað nýtt í dag!

Hvað um það, ég var að skoða vefsíðuna vistvernd í verki og fann frétt sem sýnir að við eigum eftir að verða mun hamingjusamari eftir þessa tvo mánuði.

Rúna Björg

P.S. Ég læt fréttina fylgja með í umræðum:

föstudagur, janúar 19, 2007

Átakið hafið

Þá er átakið hafið.
Nú þreyjum við þorrann og góuna og kaupum ekkert nýtt dót.
Þátttakendur hittust á spjallfundi í hádeginu, gæddu sér á léttum veitingum sem voru í boði Rúnu Bjargar (jólapiparkökur o.fl.) og ræddu málin. Mikill hugur er í fólki og allir tilbúnir í slaginn. Það örlar ef til vill á smá kvíða hjá sumum þar sem það getur verið MJÖG erfitt að standast freistingar og neita sér um að kaupa eitthvað sem mann langar í eins og t.d. flatskjá!
Látið heyra í ykkur hvernig gengur (smellið á Umræður).

F.h. Þorra og Góu
Viggi

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Startfundur

Átakið okkar þreyjum þorrann og góuna hefst eftir 21 klst. og 53 mínútur.
Þátttakendur í þessu átaki eru nú orðnir 13 sem ætla að segja markaðsöflunum stríð á hendur, en allir eru velkomnir og ekki of seint að byrja.
Á morgun, bóndadaginn ætlum við að hittast á kennarastofunni kl. 12:35 og starta átakinu með spjalli, léttum veitingum og peppi.
Nú eru síðustu forvöð að kaupa einhvern óþarfa, eins og t.d. flatskjá!

f.h. Þorra og Góu

Viggi og Rúna Björg

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þreyjum Þorrann og Góuna

Hér er á ferð hópur sem ætlar að strengja þess heit að fara í verslunarbann - frá því Þorrinn byrjar og þar til Góunni lýkur. (frá 19. janúar - 19. mars)

Tilgangurinn er að segja markaðsöflunum stríð á hendur, gerast umhverfisvænni, spara peninga og draga úr "hlutaveiki og græðgisvæðingu".

Reglurnar eru:
má kaupa mat, hreinlætisvörur, lyf og öryggisvörur.
Annað má kaupa NOTAÐ eða fá á skiptimörkuðum.


Fyrir hönd Þorra og Góu,
Helen og Viggi